Ítalska matvælafyrirtækið Ferrero, sem framleiðir meðal annars súkkulaðið Ferrero Rocher, TicTac og Kinder, er að sögn FT langt komið í viðræðum um kaup á matvælaframleiðandanum WK Kellog.

Kaupverðið er sagt vera í kringum þrír milljarðar dala, eða tvöfalt meira en núverandi markaðsvirði Kellogg, og gæti yfirtakan jafnvel átt sér stað nú í vikunni. Hvorki Ferrero né WK Kellogg hafa viljað tjá sig um málið.

Viðræðurnar tengjast breyttu landslagi innan matvælageirans en neytendur hafa í auknum mæli snúið sér að hollari valkostum. Þróunin er að hluta til knúin áfram af notkun megrunarlyfja eins og Ozempic og hefur neytt matvælaframleiðendur, sérstaklega sælgætisframleiðendur, til að breyta um stefnu.

WK Kellogg var stofnað sem morgunkornafyrirtæki af móðurfélagi sínu, Kellogg Co., sem síðar hét Kellanova. Matvælafyrirtækið Mars keypti svo Kellanova á síðasta ári fyrir 36 milljarða dala en samningurinn er háður samþykki evrópskra samkeppnisaðila.