Ásta S. Fjeld­sted, for­stjóri Festi, segir að rekstur félagsins á þriðja ársfjórðungi hafi gengið betur en áætlanir gerðu ráð fyrir en af þeim sökum hefur félagið hækkað EBITDA-spá sína fyrir árið um 400 milljónir króna.

Af­koma félagsins fyrir árið er nú áætluð á bilinu 12,7 til 13,1 milljarður króna. Sam­kvæmt ný­birtu árs­hluta­upp­gjöri sam­stæðunnar nam vöru­sala félagsins 44,2 milljörðum króna og jókst um 6,9 milljarða eða 18,5% milli ára.

Rekstur Lyfju kom inn í sam­stæðu Festi 1. júlí en án áhrifa Lyfju jókst vöru­sala Festi á þriðja árs­fjórðungi um 6,4% á milli ára.

„Bæting var á öllum sviðum rekstrar með aukningu í heimsóknum, fjölda seldra vara og fjölda seldra lítra milli ára. Fram­legðar­stig styrktist hjá öllum félögum sam­stæðunnar og hækkar heilt yfir um 1,5 p.p. milli ára eða 0,7 p.p. án Lyfju sem er sama fram­legðar­stig og náðist á síðasta árs­fjórðungi. Við erum ánægð með niður­stöðuna sem sýnir að þær að­gerðir á kostnaðar­hliðinni sem ráðist hefur verið í til að bæta fram­legðar­stig hafa skilað árangri,” segir Ásta í upp­gjöri félagsins.

Framlegð af vöru- og þjónustusölu samstæðunnar nam 10,8 milljörðum og jókst um rúma 2,2 milljarða eða 26,3% á milli ára. Aukningin var 9,6% án áhrifa Lyfju.

Launa- og starfsmannakostnaður nam 4,8 milljörðum króna og jókst um 31,3% milli ára en um 8,8% aukningu er að ræða án áhrifa Lyfju.

EBITDA- fjórðungsins var 4,7 milljarðar og hækkar um 836 milljónir eða 21,4% milli ára en 9,3% án áhrifa Lyfju.

„Lyfja kom inn í rekstur félagsins frá 1. júlí sl. og nam vörusala félagsins 4.549 millj. kr. á fjórðungnum. EBITDA Lyfju nam 473 millj. kr. og hagnaður 186 millj. kr. Allar rekstrarstærðir Festi litast af innkomu Lyfju inn í samstæðuna og gera samanburð milli ára erfiðan,” segir Ásta.

Samstæðan hagnaðist um rúma 2,2 milljarða á fjórðungnum eða 20,6% af framlegð vörusölu, sem er um 416 milljónum meira en árið áður.

Handbært fé frá rekstri nam 4,6 milljörðum eða 42,9% af framlegð, samanborið við 3,4 milljarða árið á undan.

Eigið fé nam 40,4 milljörðum króna í lok fjórðungsins og var eiginfjárhlutfallið 35,7%.