Úrvalsvísitalan stóð nánast í stað í 1,5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Þriðjungur veltunnar var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 0,4%.
Festi hækkaði um 2,5% í yfir hundrað milljóna króna veltu í dag en smásölufyrirtækið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Gengi Festi stendur nú í 209 krónum á hlut og er um 3,5% hærra en í upphafi árs.
Hagnaður Festi á öðrum fjórðungi jókst um 29% milli ára og nam 953 milljónum. Félagið færði einnig upp EBITDA-afkomuspá sína sem rekja má til þess að Lyfja er formlega orðin hluti af samstæðunni.
Það var hins vegar Eimskip sem hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 3,4% í yfir 200 milljóna veltu. Gengi Eimskips stendur nú í 362 krónum á hlut og var síðast hærra í apríl.
Gera má ráð fyrir að hækkun Eimskips í dag skýrist að hluta af því að danski skiparisinn AP Møller-Maersk færði upp afkomuspá sína fyrir yfirstandandi ár og gerir nú ráð fyrir 3-5 milljarða dala undirliggjandi EBIT-hagnaði samanborið við fyrri spá upp á 1-3 milljarða dala EBIT-hagnað.
Alvotech var eina félagið sem lækkaði um meira en eitt prósent í viðskiptum dagsins. Gengi Alvotech féll um 1,2% í 52 milljóna veltu og stendur nú í 1.645 krónum á hlut.