Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,9% í 1,4 milljarða króna veltu frá opnun Kauphallarinnar í dag. Fjögur félög aðalmarkaðarins hafa hækkað í dag, þar á meðal Marel, og bréf sex félaga hafa lækkað. Festi og Arion banki, sem birtu uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í gær, hafa bæði lækkað í fyrstu viðskiptum.
Festi hefur lækkað um 4% í meira en 300 milljóna króna viðskiptum og stendur gegni smásölufyrirtækisins nú í 189 krónum. Hagnaður félagsins dróst saman um þriðjung á milli ára og nam 1,6 milljörðum á þriðja fjórðungi en afkoma N1 versnaði um 356 milljónir frá fyrra ári. Vörusala á fjórðungnum var hins vegar sú mesta í sögu félagsins.
Gengi Arion banka hefur fallið um 0,6% í 190 milljóna veltu og stendur nú í 157 krónum. Arion hagnaðist um 4,9 milljarða á þriðja fjórðungi og var um milljarði undir væntingum greiningaraðila, einkum vegna þess að fjármunatekjur voru neikvæðar um 1,3 milljarða á fjórðungnum.