Finnska gagnaverafyrirtækið Ficolo ætlar að sameinast íslenska fyrirtækinu Verne Global sem rekur gagnaver í Reykjanesbæ, og mun Ficolo starfa undir merkjum þess síðarnefnda. Bæði félögin eru í eigu fjárfestingafélagsins Digital 9 Infrastructure (D9). Þetta kemur fram í frétt á vef Data Center Dynamics.

D9 keypti Ficolo í apríl á þessu ári, en Ficolo rekur þrjú gagnaver í Finnlandi, í Helsinki, Pori og Tampere. D9 var stofnað á síðasta ári og er í stýringu hjá Triple Point Investment Management. Félagið hefur keypt mörg gagnaversfyrirtæki á undanförnum misserum.

Fyrsta fjárfesting D9 í gagnaverum var í Verne Global. Kaupin gengu í gegn á síðasta ári, en kaupverðið var 231 milljónir punda, eða sem nemur 40,7 milljörðum króna. Meðal hluthafa Verne Global voru Stefnir og Novator Partners, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar.

D9 keypti einnig gagnaversfyrirtækið Volta Data Centres, sem er staðsett í London, á 58,5 milljónir dala í apríl síðastliðnum.