Í til­efni þess að tíu ár eru liðin frá stofnun Et­hereum hvetur Financial Times til yfir­vegaðrar um­ræðu um raf­myntir.

Þrátt fyrir gríðar­legar sveiflur, hneykslis­mál og lög­brot sýnir reynslan að hvorki svartsýni né of­mat dugar til skilja raf­myntir.

Í grein eftir Gilli­an Tett, leiðara­höfund og rit­stjóri efna­hags­mála hjá Financial Times, er dregin fram fimm mikilvæg sjónar­mið sem fjár­festar ættu að hafa í huga við mat á raf­myntum og þróun þeirra í fjár­mála­kerfinu.

1. Raf­myntir eru ekki allar eins

Ein algengustu mistök gagnrýnenda rafmynta eru að líta á þær sem einsleita heild. Raunin er önnur.

Bitcoin er einföld eign, gjarnan líkt við stafrænt gull, með það meginhlutverk að geyma verðmæti.

Ethereum er aftur á móti tæknivettvangur sem býður upp á sjálfvirka samninga og forritun. Aðrir flokkar, svo sem meme-myntir og stöðugmyntir, bjóða upp á mismunandi áhættu og eðli: þær fyrrnefndu byggja alfarið á vangaveltum en þær síðarnefndu eru studdar undirliggjandi eignum.

Fjárfestar verða því að greina á milli rafmynta í ljósi eðlis þeirra og hlutverks – líkt og þeir gera með aðrar fjármálaeignir.

2. Ekki treysta öf­gamönnum

Fyrir ára­tug héldu margir boðberar stafræns fjár­mála­kerfis því fram að raf­myntir myndu koll­varpa hefðbundnum banka- og greiðslumiðlunar­kerfum.

Sú spá hefur ekki ræst: tæknin hefur reynst dýr, flókin í notkun, orku­frek og allt of sveiflu­kennd til að teljast áreiðan­leg verðmæti. Fjöldi mála sem tengjast svikum og ólög­mætri starf­semi hefur auk þess grafið undan trúverðug­leika greinarinnar.

Á sama tíma hafa þeir sem sögðu raf­myntir vera tíma­bundið æði haft ekki síður rangt fyrir sér. Þvert á móti hefur markaðsvirði stærstu raf­myntanna rokið upp á ný og notkun svo­kallaðra stöðug­mynta er orðin sam­bæri­leg við út­breiddustu greiðslu­kerfi heims, á borð við Visa.

Reynslan sýnir því að hvorugur hópur, hvorki tals­menn byltingarinnar né spá­menn fallsins, hefur haft rétt fyrir sér í heild. Hvort tveggja byggðist á ein­földun sem stenst ekki raunsæja skoðun.

3. Hefðbundin fjár­mála­kerfi eru mætt á vett­vang

Það sem einu sinni var hugsað sem mót­vægi gegn gömlu fjár­mála­stofnunum er í dag að verða hluti þeirra.

Stærstu sjóðastýringar­fyrir­tæki heims, þar á meðal BlackRock, Fide­lity og Vangu­ard, bjóða nú upp á raf­mynta­tengda fjár­festingar­kosti. Bankar á borð við JP­Morgan þróa jafn­framt sín eigin greiðslu­kerfi með blockchain-tækni.

Fyrir fjár­festa skiptir þetta máli. Raf­myntir eru ekki lengur jaðar­viðfangs­efni fyrir áhuga­sama tækninörda heldur sí­fellt samþættari við alþjóð­legt fjár­mála­kerfi.

4. Alþjóðapólitískt sam­hengi raf­mynta er að breytast

Lengi vel átti þróun raf­mynta sér stað utan Bandaríkjanna, einkum í Asíu, en nú hefur áherslan færst: bandarísk stjórn­völd vilja taka frum­kvæði og draga starf­semi raf­mynta­geirans til sín.

Í grein Tett kemur fram að bæði pólitísk áhrif, þar á meðal fjár­hags­legur stuðningur raf­myntafélaga við kosninga­baráttu Donalds Trump, og stefnumótandi mark­mið Bandaríkjanna ráði þar för.

Bandaríska fjár­málaráðu­neytið lítur nú á stöðug­leika­myntir, studdar af dollar, sem mögu­leika til að efla eftir­spurn eftir ríkis­skulda­bréfum og styrkja stöðu dollars sem alþjóð­legs gjald­miðils.

Þessi þróun gæti orðið til þess að móta nýja alþjóð­lega fjár­mála­reglu, ekki ósvipað því sem Brett­on Woods-sam­komu­lagið gerði á sínum tíma.

5. Hugsan­leg hliðaráhrif eru áhuga­verðari en eignirnar sjálfar

Að lokum bendir Tett á að tæknin sem liggur að baki raf­myntum, dreift gagna­kerfi (e. distri­bu­ted led­gers), geti haft áhrif langt um­fram beinan fjár­hags­legan ávinning.

Tæknin kallar á nýjan hugsunar­hátt, þar sem spurt er hvort við þurfum endi­lega að byggja greiðslu­kerfi heimsins á stofnunum eins og SWIFT eða hvort yfir­ráð dollarsins séu ófrávíkjan­leg.

Slík þróun opnar á spurningar um sjálf­stæði ríkja, dreifingu fjár­magns og nýja mögu­leika í milli­ríkja­við­skiptum.

Í grein sinni segir Tett að hún vilji hvorki verja né óttast raf­myntir en segir að lokum að í fjár­festingum, líkt og í lífinu, sé sjaldan hægt að full­yrða neitt með al­gjörri vissu.

Raunsætt mat og greining eru mikilvægari en háværar full­yrðingar; það á líka við um raf­myntir.