Landeldisfyrirtækið First Water í Þorlákshöfn hefur það sem af er ári slátrað 1.000 tonnum af heilum og slægðum laxi.
Til samanburðar slátraði fyrirtækið alls 365 tonnum á síðasta ári og er aukningin til marks um þann mikla kraft sem settur hefur verið í uppbyggingu First Water og framleiðslu fyrirtækisins, að því er kemur fram í tilkynningu.
Haft er eftir Eggerti Þór Kristóferssyni, forstjóra First Water, að stefnan sé sett á að í árslok hafi 1.500 tonnum af laxi verið slátrað hjá félaginu árið 2024.
„Við erum verulega stolt af þessum áfanga og er óhætt að segja að hann gefur starfsfólkinu enn jákvæðari sýn á þau markmið sem við höfum sett okkur. Þetta markmið er í höfn og við erum bara rétt að byrja en stefnan er sett á að í árslok hafi 1.500 tonnum af laxi verið slátrað hjá okkur árið 2024.“
Seiðaeldisstöð að Öxnalæk í Ölfusi sér fyrirtækinu fyrir öllum laxaseiðum þess, en vegna hinnar hröðu uppbyggingar, stendur til að byggja nýja tæknivædda og vandaða seiðastöð, í Þorlákshöfn, svo auka megi afkastagetuna enn frekar.
„Við gerum ekkert nema gera það vel og nýja seiðaeldisstöðin verður þar engin undantekning. Við höfum nú þegar sett saman teymi sérfræðinga til að annast rekstur og uppbyggingu seiðaeldisstöðvanna og það verður spennandi að sjá afrakstur þeirrar vinnu,“ bætir Eggert við.