Norski fóðurframleiðandinn Skretting Norway skoðar nú möguleikann á því að koma upp fóðurverksmiðju á Íslandi fyrir laxeldi.
Þetta kemur fram í Fiskifréttum Viðskiptablaðsins en haft er eftir Haarvard Walde, forstjóra Skretting Norway, í viðtali við Intrafish að Ísland hafi til langs tíma möguleikann á því að verða þriðji stærsti laxaframleiðandi í heimi.
„Þetta mun taka tíma en möguleikarnir eru klárlega til staðar. Ef það er einhver staður í heiminum með mjög sterka kosti fyrir góða starfsemi þá er það Ísland,“ segir Walde við Intrafish.
Að sögn Walde fylgist Skretting náið með mikilli uppbyggingu landeldis á Íslandi.
Þessi norski fóðurframleiðslrisi hafa þegar komið sér upp vöruhúsi í Þorlákshöfn þar sem landeldisfyrirtæki eru nú að koma sér fyrir.
Um það vil vikulega sé flutt inn fóður til landsins. Ætlunin sé sú að þegar eldisframleiðslan hér hafi náð nægu magni að skoða möguleikann á því að reisa fóðurverksmiðju hérlendis.
Þess má geta að Skretting er í eigu hollenska fyrirtækisins Nutreco sem er einn hluthafa í landeldisfyrirtækinu Laxey í Vestmannaeyjum og stærsti framleiðandi í heimi á fiskafóðri.
Hægt er að lesa frétt Fiskifrétta um málið hér.