Fjár­festar í evrópskum fast­eigna­tryggðum skulda­bréfum (Commercial mortgage-backed securities, CMBS), sem áður báru hæstu láns­hæfis­ein­kunnir, standa nú frammi fyrir veru­legri hættu á fjár­hags­legu tapi, sam­kvæmt Financial Times.

Ástæða þess er stór­felld virðis­rýrnun á skrif­stofu­eign í út­hverfi Parísar, þar sem upp­lýsingatækni­fyrir­tækið Atos er aðal­leigjandi.

Um er að ræða skrif­stofu­bygginguna River Ou­est í Cour­be­voi­e, sem tryggir greiðslur skulda­bréfa út­gefnum árið 2020 af félaginu River Green Finance DAC.

Sam­kvæmt nýju mati Cus­hman & Wa­kefi­eld hefur virði eignarinnar lækkað úr 307 milljónum evra árið 2023 í 139,1 milljón evra í mars síðastliðnum. Á móti stendur útistandandi skuld að fjár­hæð um 180 milljónir evra.

Þó umrædd fasteign, River Ouest, sé staðsett í úthverfi Parísar, varar málið ekki aðeins franska fjárfesta eða fasteignamarkaðinn í Frakklandi.

River Quest í París.
River Quest í París.

Þvert á móti lýsir það breiðari hættu sem snýr að öllum fjárfestum í evrópskum fasteignatryggðum skuldabréfum (CMBS), sem hafa hingað til verið talin tiltölulega örugg fjárfesting, sérstaklega ef skuldabréfin bera háa lánshæfiseinkunn.

Málið endurspeglar breytta áhættumynd á evrópskum atvinnuhúsnæðismarkaði og er aðeins annað dæmi frá árinu 2008 þar sem CMBS-skuldir með hæstu lánshæfiseinkunn valda fjárfestum tapi.

Sér­fræðingar Bank of America telja að jafn­vel Class A-bréfin, sem áður nutu hæstu láns­hæfis­ein­kunnar (AAA), geti tapað allt að 50 pró­sentum af höfuðstól sínum. Lakari flokkarnir, s.s. Class D, eru metnir verðlausir um þessar mundir.

Atos stendur undir rúm­lega 80 pró­sentum af leigu­tekjum eignarinnar og er í viðræðum við leigu­sala um framtíðar­sam­komu­lag.

Fyrir­tækið hefur sætt mikilli endur­skipu­lagningu og fjár­málaóvissu undan­farin misseri og hefur ekki tjáð sig um stöðu leigu­samningsins. Fjár­festar óttast að Atos kunni að draga sig út, sem myndi rýra verðmæti eignarinnar enn frekar.

Breyttur fast­eigna­markaður veikir veð­tryggingar

Grein­endur benda á að eftir­spurn eftir skrif­stofurýmum hafi tekið stakka­skiptum eftir CO­VID-19.

Fyrir­tæki kjósi nú smærri, betur stað­settar eignir með fjöl­breyttri aðstöðu í stað stórra út­hverfa­húsa. Þetta stangast á við for­sendur skulda­bréfanna þegar þau voru gefin út árið 2020.

„Markaðurinn hefur gjör­breyst. Út­hverfa­skrif­stofur höfðu meira aðdráttar­afl fyrir heims­far­aldurinn en eftir­spurnin hefur síðan færst yfir í miðlægar stað­setningar,“ segir Mark Nichol, sér­fræðingur í CMBS hjá Bank of America.

Hann bendir á að enginn nýr leigu­samningur hafi verið gerður í Cour­be­voi­e síðan 2021 og segir „stöðnun“ á markaðinum.

Þetta er aðeins í annað sinn frá fjár­mála­kreppunni 2008 sem skulda­bréf með hæstu láns­hæfis­ein­kunn í CMBS-geiranum standa frammi fyrir því að skila fjár­festum minna en nafn­verði. Slík skulda­bréf byggjast oft á einni undir­liggjandi fast­eign, sem eykur áhættu þegar leigu­tekjur tapast eða virði eigna hrynur.

„CMBS er meðal fárra undir­flokka veð­tryggðra skulda­bréfa þar sem veru­leg frávik koma reglu­lega upp,“ segir Aza Teeuwen, sjóðs­stjóri hjá Twen­ty­Four Asset Mana­gement við FT. „Ef eitt­hvað bregst í rekstri einnar fast­eignar geta áhrifin orðið mjög al­var­leg.“

Svipuð til­vik hafa komið upp í Bret­landi, þar sem verðmæti verslunar­miðstöðva sem tryggðu út­gefin skulda­bréf hefur fallið niður fyrir höfuðstól lánsins og skulda­bréfa­eig­endur orðið af stórum hluta fjár­festingar sinnar.