Verðbréfamiðlarar og fjárfestar eru að búa sig undir óstöðugleika á mörkuðum, sér í lagi á skuldabréfa- og gjaldeyrismörkuðum, á morgun vegna forsetakosninga vestanhafs.
Samkvæmt Financial Times eru fjárfestar nú þegar búnir að gera valréttasamninga í tengslum við stórar sveiflur í báðar áttir.
Fjármálafyrirtæki eru nú þegar byrjuð að gera ráðstafanir með því að m.a. bóka hótelherbergi nálægt Wall Street fyrir verðbréfamiðlara sem búa í úthverfum ef krafta þeirra verður óvænt þörf um miðja nótt.
„Ég verð límdur við skjáinn,“ segir Vikram Prasad, framkvæmdastjóri verðbréfamiðlunar hjá Citi í samtali við FT. „Við erum að samstilla aðgerðir þvert á allt fyrirtækið,“ bætir hann við.
Um leið og kjörstaðir loka mun athyglin beinast að skuldabréfa- og peningamörkuðum en búast má við miklum viðskiptum þar alla kosninganóttina. Samkvæmt FT verða einnig gerðir framvirkir samningar á hlutabréfamörkuðum en meiri óvissa ríkir þar fram að opnun markaða í New York daginn eftir.
Samkvæmt FT mun rafmyntamarkaðurinn einnig hafa meiri áhrif á markaðssveiflur í ár en fyrir fjórum árum síðan en hægt er að kaupa og selja rafmyntir allan sólarhringinn.
Richard Chambers, sem sér um endurhverf viðskipti (e. repo trading) hjá Goldman Sachs, segir að deildin sín muni taka nokkurra klukkutíma hlé annað kvöld áður en allir verða kallaðir aftur til vinnu þegar Asíumarkaðir opna.
Endurhverf viðskipti eru algeng á milli fjármálastofnana og byggjast í einföldu máli á því að stofnun veðsetur eignir fyrir lausafé. Endurhverf viðskipti eru stunduðu milli banka þegar þörf er á skammtímafjármögnun.
„Við viljum að allir fái smá hvíldartíma áður en það þarf að ræsa vélarnar að nýju á þriðjudagskvöldið. Það sem við höfum lært síðustu kosningar er að lykilupplýsingarnar eru oft að koma í ljós í kringum miðnætti og tvo að nóttu til,“ segir Chambers.
Hann segir að óstöðugleiki á mörkuðum muni ráðast af því hversu mikill ágreiningur verður um niðurstöðuna.
„Við búumst við mun meiri veltu á þriðjudagskvöldið og á miðvikudaginn en það gæti verið raunin alla vikuna samhliða nýjum upplýsingum um niðurstöðuna,“ segir Chambers.
Samkvæmt valréttarsamningum í tengslum við S&P 500 vísitölurnar eru fjárfestar að spá um 2,2% sveiflu í aðra hvora áttina.