Verðbréfa­miðlarar og fjár­festar eru að búa sig undir óstöðug­leika á mörkuðum, sér í lagi á skulda­bréfa- og gjald­eyris­mörkuðum, á morgun vegna for­seta­kosninga vestan­hafs.

Sam­kvæmt Financial Times eru fjár­festar nú þegar búnir að gera val­rétta­samninga í tengslum við stórar sveiflur í báðar áttir.

Fjár­mála­fyrir­tæki eru nú þegar byrjuð að gera ráð­stafanir með því að m.a. bóka hótel­her­bergi nálægt Wall Street fyrir verðbréfa­miðlara sem búa í út­hverfum ef krafta þeirra verður óvænt þörf um miðja nótt.

„Ég verð límdur við skjáinn,“ segir Vikram Pra­sad, fram­kvæmda­stjóri verðbréfa­miðlunar hjá Citi í sam­tali við FT. „Við erum að sam­stilla að­gerðir þvert á allt fyrir­tækið,“ bætir hann við.

Um leið og kjör­staðir loka mun at­hyglin beinast að skulda­bréfa- og peninga­mörkuðum en búast má við miklum við­skiptum þar alla kosninganóttina. Sam­kvæmt FT verða einnig gerðir fram­virkir samningar á hluta­bréfa­mörkuðum en meiri óvissa ríkir þar fram að opnun markaða í New York daginn eftir.

Sam­kvæmt FT mun raf­mynta­markaðurinn einnig hafa meiri áhrif á markaðs­sveiflur í ár en fyrir fjórum árum síðan en hægt er að kaupa og selja raf­myntir allan sólar­hringinn.

Richard Cham­bers, sem sér um endur­hverf við­skipti (e. repo tra­ding) hjá Gold­man Sachs, segir að deildin sín muni taka nokkurra klukkutíma hlé annað kvöld áður en allir verða kallaðir aftur til vinnu þegar Asíu­markaðir opna.

Endur­hverf við­skipti eru al­geng á milli fjár­mála­stofnana og byggjast í ein­földu máli á því að stofnun veð­setur eignir fyrir lausafé. Endur­hverf við­skipti eru stunduðu milli banka þegar þörf er á skammtíma­fjár­mögnun.

„Við viljum að allir fái smá hvíldar­tíma áður en það þarf að ræsa vélarnar að nýju á þriðju­dagskvöldið. Það sem við höfum lært síðustu kosningar er að lykil­upp­lýsingarnar eru oft að koma í ljós í kringum miðnætti og tvo að nóttu til,“ segir Cham­bers.

Hann segir að óstöðug­leiki á mörkuðum muni ráðast af því hversu mikill ágreiningur verður um niður­stöðuna.

„Við búumst við mun meiri veltu á þriðju­dagskvöldið og á miðviku­daginn en það gæti verið raunin alla vikuna sam­hliða nýjum upp­lýsingum um niður­stöðuna,“ segir Cham­bers.

Sam­kvæmt val­réttar­samningum í tengslum við S&P 500 vísitölurnar eru fjár­festar að spá um 2,2% sveiflu í aðra hvora áttina.