Viðbúið er að hlutafjáraukning Eyris invest sem sögð er vera í pípunum þurfi að vera á þónokkrum afslætti til að takist að laða að nægt fjármagn, en það gæti farið öfugt ofan í suma núverandi hluthafa sem hafa lengi haft vilja til að losa um hlut sinn. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins.
Eignastaða Eyris hefur rýrnað verulega síðastliðið ár samhliða fallandi hlutabréfaverði Marels, hvar félagið er stærsti hluthafinn með rétt tæpan fjórðungshlut og eignarhluturinn að sama skapi langtum stærsta eign Eyris eða um 94% heildareigna um síðustu áramót.
Gæti endað í þröngri stöðu
Meðal skulda Eyris er lánasamningur við bandaríska bankann Citibank sem hljóðaði upp á allt að 150 milljónir evra – ígildi um 21,5 milljarða króna í dag – um áramótin. Sú skuld er sögð bera skilmála sem kveði á um lágmarks eiginfjárhlutfall og vera tryggð með veði í bréfum Eyris í Marel.
Valið gæti þá staðið milli þess að selja nýtt hlutafé á undirverði miðað við eigið fé og þynna þar með út og rýra virði eigin eignarhlutar, ellegar nýta sér forgangsrétt og leggja félaginu til enn meiri fjármuni sem þar með yrðu „læstir inni“ með þeim sem þar eru fyrir.
Hvað hugsanlegt verð varðar herma heimildir að lítill hluthafi eða hluthafar hafi fyrir nokkrum árum síðan selt hlut sinn – en félagið sjálft var kaupandinn – á afslætti sem numið hafi tugum prósenta.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.