Fyrirhugað er að breyta reglugerð um tekjujöfnunarframlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga með það að marki að fjölga sveitarfélögum sem fá tekjujöfnunarframlög. Þetta kemur fram í reglugerðardrögum sem nýverið voru birt í Samráðsgátt stjórnvalda.

Í fyrirhugaðri breytingu felst að í stað þess að meðaltekjur í viðmiðunarflokkum séu lækkaðar, til þess að framlög muni stemma við fjármagn sem til ráðstöfunar er, verða framlögin aðlöguð að fjárhæðinni með hlutfallsreikningi. Er sú framkvæmd í samræmi við aðrar úthlutanir sjóðsins.

Verði af breytingunni mun sveitarfélögum, sem fá tekjujöfnunarframlög frá sjóðnum, fjölga en að mati sjóðsins er breytingin til þess fallin að auka tekjujöfnun sveitarfélaga á milli. Í athugasemdum með breytingartillögunni er þess getið að sveitarfélög, sem hafa haft hámarkstekjur á bilinu 94-97% af meðaltali hvers viðmiðunarflokks, ekki fengið framlag samkvæmt núgildandi framkvæmd.

„Gert er ráð fyrir því að ef til þess kemur að breytingin taki strax gildi og færi því um útgreiðslu framlagsins þann 1. nóvember næstkomandi í samræmi við hina nýju aðferð við útreikning framlagsins,“ segir í athugasemdunum. Umsagnarfrestur um tillöguna er til 20. október næstkomandi.