Gistinætur á hótelum í janúar voru tæplega 291.000 á landsvísu eða tæplega 1,4% fleiri en á sama tíma árið 2024 þegar þær voru tæplega 287.000. Þetta kemur fram á síðu Hagstofunnar en þar segir að fjölgun hafi verið í flestum landshlutum.
Fjölgunin var mest á Norðurlandi, eða 34,7% og á Austurlandi fjölgaði þeim um tæpan fjórðung. Þá var 20% fjölgun á Suðurnesjum og rúmlega 10% fjölgun á Suðurlandi.
Gistinóttum fjölgaði því í flestum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu en þar fækkaði þeim um tæplega 4,4%. Alls fækkaði gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu um tæplega níu þúsund á meðan samanlögð aukning í öðrum landshlutum var tæplega 13 þúsund.
Framboð hótelherbergja í janúar dróst hins vegar saman um tæplega 1,9% miðað við sama tíma í fyrra. Samdráttur var í öllum landshlutum nema á Norðurlandi þar sem fjöldi herbergja jókst um 2,8%.
„Herbergjanýting jókst aftur á móti í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún dróst saman um 1,2 prósentustig. Á landinu í heild sinni mældist aukningin í nýtingu herbergja alls 1,9 prósentustig og var aukningin mest á Austurlandi (7,3 prósentustig). Umtalsverð aukning var einnig á Suðurlandi (5,9 prósentustig). Loks jókst herbergjanýting um 3,4 prósentustig á Suðurnesjum, 3,1 prósentustig á Norðurlandi og 2,0 prósentustig á Vesturlandi og Vestfjörðum,“ segir í greiningu.
Þegar allir skráðir gististaðir eru skoðaðir, þar með talið orlofshús, tjaldsvæði o.fl., var áætlaður heildarfjöldi gistinátta í janúar tæplega 401.000. Þetta var 2,8% aukning milli ára en þá var heildarfjöldi gistinátta á öllum gististöðum tæplega 390.000.