Eigendur veitingastaðanna Flame og Bambus undirbúa nú stefnu á hendur stéttarfélagsins Matvís vegna fullyrðinga á borð við mansal, stórfelldan þjófnað og að starfsfólk hafi unnið 10-16 tíma á dag, sex daga vikunnar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá eigendum staðanna tveggja, Davíð Fei Wang og Bei Wang. Yfirlýsinguna í heild sinni má finna neðst í fréttinni.

„Alvarlegar ásakanir á hendur Flame, Bambus og eigendum staðanna á opinberum vettvangi hafa skaðað mannspor og lagt rekstur veitingastaðanna í rúst,“ segir í yfirlýsingunni. Eigendurnir furða sig á því hvernig Matvís stóð að umfjöllun á málinu og telja að stéttarfélagið hafi ekki farið eftir eigin verklagi.

Fram kemur að veitingastaðurinn Flame hefur verið lokaður alveg frá 19. ágúst, eða því að Fagfélögin framkvæmdu vinnustaðaeftirlit.

„Matvís skeyttu engu um afleiðingar þess að ganga fram með svo harkalegum hætti auk þess sem ekkert tilefni var til þess að gera slíkt. Þar sem eðlilegar verklagsreglur voru brotnar og farið fram opinberlega með rangar fullyrðingar þá neyðast staðirnir til að sækja tjón sitt á hendur Matvís með málsókn.“

Mikið var fjallað um málið í ágúst eftir að Fagfélögin sendu frá sér tilkynningu um grun um stórfelldan launaþjófnað á tveimur veitingastöðum, sem síðar var upplýst að væru Flame og Bambus, gagnvart þremur starfsmönnum af erlendum uppruna. Starfsmennirnir voru félagsmenn í Matvís, félagi iðnaðarmanna í matvæla- og veitingageiranum.

Benóný Harðarson, forstöðumaður kjaradeildar Fagfélagana, sagði við mbl.is þann 25. ágúst að umræddir starfsmenn hefðu unnið 10-16 vinnustundir á dag, sex daga vikunnar og fengið lágmarkslaun fyrir. Benóný sagði að ekki hefði verið greitt vaktaálag, yfirvinna eða orlof ásamt því að ýmis frádráttur hafi komið á laun þeirra. Málið var tilkynnt til lögreglu.

„Það er alveg ljóst að fullyrðingar um mansal, stórfelldan launaþjófnað og 10-16 tíma vinnudaga eiga ekki við rök að styðjast. En við gerðum mistök við útreikning launa sem var leiðréttur um leið og útreikningar lágu fyrir,“ segir í yfirlýsingu eigendanna.

„Talsvert af skekkjum í útreikningi Matvís“

Eigendurnir segjast fyrst hafa fengið vitneskju um að laun kunni að hafa misreiknast þann 19. ágúst eftir vinnustaðaeftirlit á vegum Fagfélaganna. Þeir hafi sýnt samstarfsvilja frá byrjun og ítrekað komið á framfæri vilja til að gera rétt við starfsfólkið. Tveimur vikum síðar hafi Matvís reiknað laun starfsmannanna upp á nýtt.

„Talsvert var af skekkjum í útreikningi Matvís og þurftu því lögmenn Flame að fara yfir alla útreikninga og forsendur með það að leiðarljósi að greiða starfsfólkinu rétt laun samkvæmt kjarasamningi Matvís.“

Endurgreiddu samtals 3 milljónir

Vinnu lögmanna Flame lauk tíu dögum síðar og starfsmennirnir fengu þá greidd laun samkvæmt útreikningum lögmanna Flame þann 11. september. Samtals fengu starfsmennirnir þrír, sem unnu allir hjá Flame, greiddar rúmar 3 milljónir króna auk þess sem staðið var skil á staðgreiðslu og öðrum launatengdum gjöldum.

Í tilkynningunni segir að helsti munurinn á áður greiddum launum og útreikningunum hafi verið að afnot af húsnæði reiknist ekki upp í lágmarkslaun „eins og við höfðum áður staðið í trú um“.

„Þegar rykið settist og gögnin voru skoðuð þá mátti sjá af ráðningarsamningum að ekki hafði verið samið um að húsnæði væri hluti af starfskjörum viðkomandi þriggja starfsmanna. Það þurfti því að taka kostnað vegna húsnæðis út fyrir launaútreikningana en leiga ásamt rafmagni, hita o.fl. á tímabilinu nam samtals fyrir þau þrjú nærri fjórum milljónum króna.“

Varðandi orlof þá segja eigendurnir að það hafi verið mistök að tilgreina ekki orlof á launaseðli. Þar sem umræddir starfsmenn eru hættir störfum hjá Flame þá hafi orlofið verið greitt út þann 17. september samhliða greiðslu launa fyrir ágústmánuð.

Áfram uppi ágreiningur við Matvís

Eigendurnir segjast hafa staðið í þeirri trú að með greiðslunni þann 17. september hafi Flame staðið réttilega skil á öllum launum og launatengdum gjöldum þessara þriggja fyrrum starfsmanna.

„Enn er þó ágreiningur við Matvís þar sem gerðar eru kröfur um greiðslur fyrir talsvert af vinnustundum þegar fólkið var ekki við vinnu, kröfur vegna vetrarfrís auk þess sem kröfur Matvís byggja á öðru og nokkuð hærra tímagjaldi en það tímagjald sem kemur fram í ráðningarsamningi. Hvað það varðar er rétt að benda á að Matvís staðfesti og stimplaði á sínum tíma alla ráðningarsamningana áður en starfsfólkið hóf störf hjá Flame.“

Yfirlýsing Flame og Bambus í heild sinni:

„Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um málefni þriggja fyrrum starfsmanna veitingarstaðarins Flame er eftirfarandi komið á framfæri við núverandi og fyrrverandi starfsmenn sem og viðskiptavini.

Okkur langar að biðja fyrrum starfsfólk Flame innilegrar afsökunar á því að laun þeirra hafi ekki verið rétt reiknuð, það var ekki ætlunin. Við berum virðingu fyrir þeim og höfðum engan hug á að hlunnfara þau. Það er miður að þetta mál hafi bitnað á þeim. Starfsfólkið fékk greitt í samræmi við umsamin mánaðarlaun, hafði afnot af húnsæði, rafmagni, hita, interneti o.fl. Mánaðarlaunin voru og eru í samræmi við kjarasamning Matvís og Samtaka atvinnulífsins.

Við fengum fyrst vitneskju um að laun kunni að hafa misreiknast seint þann 19. ágúst þegar starfsmenn Matvís komu á veitingastaðinn Flame að kvöldi til. Frá því málið kom upp höfum við alveg frá byrjun sýnt samstarfsvilja og ítrekað komið því á framfæri við Matvís, stéttafélag starfsfólksins, að við viljum gera rétt við starfsfólkið í einu og öllu. Þessu var ítrekað komið á framfæri símleiðis, skriflega og í persónu. Þann 1. september eða tæpum tveimur vikum seinna hafði Matvís reiknað laun starfsfólksins upp á nýtt út frá tímavinnukaupi og unnum stundum. Talsvert var af skekkjum í útreikningi Matvís og þurftu því lögmenn Flame að fara yfir alla útreikninga og forsendur með það að leiðarljósi að greiða starfsfólkinu rétt laun samkvæmt kjarasamningi Matvís. Þeirri vinnu lauk tíu dögum síðar og voru starfsfólkinu greidd laun samkvæmt útreikningum lögmanna Flame 11. september.

Helsti munurinn á áður greiddum launum og útreikningunum var sá að afnot af húsnæði reiknast ekki upp í lágmarkslaun eins og við höfðum áður staðið í trú um. Þegar rykið settist og gögnin voru skoðuð þá mátti sjá af ráðningarsamningum að ekki hafði verið samið um að húsnæði væri hluti af starfskjörum viðkomandi þriggja starfsmanna. Það þurfti því að taka kostnað vegna húsnæðis út fyrir launaútreikningana en leiga ásamt rafmagni, hita o.fl. á tímabilinu nam samtals fyrir þau þrjú nærri fjórum milljónum króna. Samtals fékk starfsfólkið greiddar rúmar 3 milljónir króna um leið og útreikningar lögmanna Flame lágu fyrir auk þess sem staðið var skil á staðgreiðslu og öðrum launatengdum gjöldum. Matvís vildi ekki jafna skuldum vegna húsaleigu við launakröfurnar og var það því ekki gert.

Í upphaflegum útreikningum Matvís var ekki gert ráð fyrir orlofi né launum fyrir ágúst 2022. Þær kröfur komu síðar. Það voru mistök af okkar hálfu að tilgreina ekki orlof á launaseðli en það stóð til að starfsfólkið tæki launað orlof eins og starfsmenn veitingastaðarins höfðu almennt gert. Þar sem starfsfólkið hefur hætt störfum hjá Flame þá var orlofið að sjálfsögðu greitt út enda stóð aldrei annað til en að orlof yrði greitt út ef það yrði ekki tekið. Var það gert þann 17. september samhliða greiðslu launa fyrir ágústmánuð. Á þeim tímapunkti teljum við að staðið hafi verið réttilega skil á öllum launum og launatengdum gjöldum þessara þriggja fyrrum starfsmanna okkar.

Enn er þó ágreiningur við Matvís þar sem gerðar eru kröfur um greiðslur fyrir talsvert af vinnustundum þegar fólkið var ekki við vinnu, kröfur vegna vetrarfrís auk þess sem kröfur Matvís byggja á öðru og nokkuð hærra tímagjaldi en það tímagjald sem kemur fram í ráðningarsamningi. Hvað það varðar er rétt að benda á að Matvís staðfesti og stimplaði á sínum tíma alla ráðningarsamningana áður en starfsfólkið hóf störf hjá Flame. Óskað hefur verið eftir því við Matvís að færa fram rök fyrir þessum viðbótarkröfum enda stendur vilji til þess eins að gera rétt við allt starfsfólk Flame.

Okkur finnst mikilvægt að koma því á framfæri að starfsfólkið vann aldrei 10-16 tíma vinnudaga 6 daga vikunnar og við áttum okkur ekki á því af hverju starfsmaður Matvís hélt því margsinnis fram í fjölmiðlum enda er það kolrangt. Þegar kröfur Matvís komu fram þá byggðu þær á 8-9 tíma vinnudögum 5-6 daga vikunnar með einstaka undantekningum í báðar áttir. Ítrekað hefur verið óskað eftir því við Matvís að rangfærslur yrðu leiðréttar opinberlega án þess að brugðist hafi verið við þeim áskorunum.

Það er alveg ljóst að fullyrðingar um mansal, stórfelldan launaþjófnað og 10-16 tíma vinnudaga eiga ekki við rök að styðjast. En við gerðum mistök við útreikning launa sem var leiðréttur um leið og útreikningar lágu fyrir. Við áttum okkur ekki á því af hverju Matvís kaus að fjalla um mál okkar í fjölmiðlum strax frá því málið kom upp og nær daglega á tímabili með röngum staðhæfingum og röngum fullyrðingum og gífuryrðum. Verklag Matvís og annarra stéttafélaga er á þá leið að ef grunur vaknar um rangar launagreiðslur að þá er haft samband við vinnuveitanda og honum gefinn kostur á að koma með sín sjónarmið og eftir atvikum leiðrétta misfellur í launaútreikningum. Stéttarfélag gerir annars kröfu f.h. starfsmanna og veitir viðkomandi vinnuveitanda tiltekinn frest til að greiða kröfuna. Þetta var því miður ekki það verklag sem Matvís viðhafði í máli Flame. Hvers vegna vitum við ekki.

Það hefur komið í ljós að starfsmenn Matvís fóru með alvarlegar fullyrðingar við fyrrum starfsfólk Flame að kvöldi 19. ágúst sl. Kom fram hjá starfólki Matvís að stéttarfélag gæti ekki lokað veitingastöðum en félagið gæti hins vegar tekið kokkana í burtu svo eigendur staðarins gætu ekki annað gert en lokað. Það hefur verið raunin og Flame hefur verið lokaður frá 19. ágúst. Þá var fullyrt af hálfu Matvís við starfsfólkið að Flame stæði í skuld við hið opinbera og myndi ekki geta staðið skil á greiðslum mánaðamótin á eftir nema með samþykki manneskju sem yfirvöld myndu ráða til að hafa umsjón með reikningum Flame. Þetta eru ósannindi. Þá var starfsfólkinu sagt að það gæti fengið 500-600 þúsund krónur inn á reikning sinn mánaðalega fyrir vinnu á öðrum veitingastað. Að sjálfsögðu fór starfsfólkið með Matvís þetta kvöld eftir þessar fullyrðingar og höfum við ekki heyrt frá því síðan.

Alvarlegar ásakanir á hendur Flame, Bambus og eigendum staðanna á opinberum vettvangi hafa skaðað mannspor og lagt rekstur veitingastaðanna í rúst. Engar kröfur hafa verið gerðar vegna starfsfólks Bambus, einungis vegna starfsfólks Flame. Matvís skeyttu engu um afleiðingar þess að ganga fram með svo harkalegum hætti auk þess sem ekkert tilefni var til þess að gera slíkt. Þar sem eðlilegar verklagsreglur voru brotnar og farið fram opinberlega með rangar fullyrðingar þá neyðast staðirnir til að sækja tjón sitt á hendur Matvís með málsókn.

Á sama tíma og við ítrekum hversu mjög við hörmum mistök okkar gagnvart fyrrverandi starfsfólki, þá viljum við þakka því fyrir góð störf og óskum þeim alls hins besta.“