Lítt þekkt en afar skaðsöm gróðurhúsalofttegund sem fylgir framleiðslu hinna sífellt vinsælli flatskjáa fyrir tölvur og sjónvörp hefur valdið töluverðum usla meðal vísindamanna og stjórnmálamanna, en lofttegundin fellur utan Kyoto-bókunarinnar við Loftslagssáttmála SÞ.

Vísindamennirnir Michael Prather og Juno Hsu við Kaliforníu-háskóla birtu niðurstöður í tímaritinu Geophysical Research Letters sem ebnda til þess að framleiðsla á lofttegundinni - sem nefnist nítrógen tríflúoríð eða NF3 - muni ná fjögur þúsund tonnum á þessu ári, og tvöfaldast á því næsta.

Framleiðsla efnisins er nú meiri en sumra af þeim sex gróðurhúsalofttegundum sem Kyoto-bókunin nær til, en talið er að áhrif þess á hlýnun jarðar geti verið 17 þúsund sinnum meiri en áhrif koltvísýrings miðað við þyngd. Því getur verið um að ræða 67 milljónir tonna af koltvísýringsígildi, sem er í líkingu við samanlagða árslosun Austurríkis.

NF3 losnar þó ekki af sjálfu sér út í andrúmsloftið eins og margar aðrar gróðurhúsalofttegundir.

Vísindamennirnir Prather og Hsu telja engu að síður ástæðu til að hafa áhyggjur, sökum þess að framleiðsla og meðferð efnisins lýtur engum reglugerðum eða eftirliti og ekkert er vitað um hve mikið magn þess losnar út í andrúmsloftið.