Fyrr í mánuðinum rann út frestur til að skila inn skattframtali einstaklinga vegna síðasta árs. Skattskilin geta verið flókin og tímafrek fyrir þá einstaklinga sem stunda reglubundin hlutabréfaviðskipti. Flest allar upplýsingar um eigna- og skuldastöðu einstaklinga færist sjálfkrafa inn á framtalið en það sama gildir ekki um hlutabréfaviðskipti. Slík viðskipti þarf að slá inn handvirkt.
Viðskiptablaðið sendi Skattinum fyrirspurn um hvers vegna svo sé og hvort það standi til að auðvelda hlutabréfaeigendum framtalsskilinn með aukinni sjálfvirknivæðingu.
Í svari Skattsins við fyrirspurn blaðsins kemur fram að hlutabréfaviðskipti einstaklinga séu meðal flóknari uppgjöra í skattframtali og að mörgu þurfi að hyggja.
„Kaupverð hlutabréfa er oftast annað en áritað nafnverð. Erlend hlutabréf þarf að umreikna í íslenskar krónur við hver viðskipti. Hlutabréfum geta einnig fylgt mismunandi skattaleg réttindi sem þarf að skrá með réttum hætti,“ segir í svarinu.
Viðskipti hafi breyst mikið með tilkomu rafrænna viðskipta einstaklinga þar sem mörg viðskipti geti farið fram sama dag. Einnig sé rétt að hafa í huga að ekki öll viðskipti fari fram á skráðum hlutabréfamörkuðum og Skatturinn hafi takmarkaðri upplýsingar um erlend hlutabréfaviðskipti en innlend.
Ýmsar skattalegar ráðstafanir í gegnum tíðina hafi einnig flækt framtalsgerðina. Þannig sé heimilt að uppreikna kaupverð hlutabréfa sem keypt voru 1996 eða fyrr með jöfnunarstuðli eða hækka kaupverð þeirra með verðbreytingarstuðli til ársloka 1996 til að leiðrétta fyrir áhrifum verðbólgu.
„Slík heimild getur haft veruleg áhrif á útreikning söluhagnaðar og sölutaps. Einnig er söluhagnaður tiltekinna hlutabréfa skattfrjáls upp að ákveðnum mörkum. Þá má nefna að hlutabréf sem keypt eru skv. kaupréttarsamningi eru mörg hver með áhvílandi tekjuskattskvöð.“
Þannig hafi þurft að skipta uppgjörsformi fyrir hlutabréfaviðskipti í fimm flokka. „Almenn hlutabréf, hlutabréf sem keypt voru samkvæmt kauprétti og eru með áhvílandi tekjuskattskvöð, hlutabréf þar sem kaupin veittu rétt til frádráttar frá tekjum og keypt voru á árunum 2016 til 2022, sérstök hlutabréf (hlutabréf sem voru keypt á árunum 1990-1996 og veittu rétt til skattafrádráttar) og erlend hlutabréf.“ Eign í sama hlutafélagi geti því þurft að færa í mismunandi kafla í hlutabréfaforminu með skattframtali.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 30. mars. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.