Flugfélagið Ernir hefur gert samkomulag við innviðaráðuneytið um flug til Vestmannaeyja þrisvar sinnum í viku, tvö flug á þriðjudögum og eitt á föstudögum. Fyrsta flugið verður á föstudaginn, 16. desember
Í fréttatilkynningu segir að markmið samkomulagsins sé að bæta samgöngur til og frá Vestmannaeyjum yfir vetrartímann en að óbreyttu sé ekki unnt að hefja flug þangað á markaðslegum forsendum.
„Að mati ráðuneytisins var því talið nauðsynlegt að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á flugi til og frá Vestmannaeyjum í vetur á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda flugið mjög mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Vestmannaeyjum.“
Flugfélagið Ernir sinnti áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá árinu 2010 til í september 2020 en lagði í kjölfarið flug niður vegna minnkandi eftirspurnar.
Ernir fagnar því að þjónusta svæðið aftur og segist vona að hægt verði að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar með fleiri flugferðum í viku hverri.