Á næsta ári verður aukin áhersla á uppbyggingu innanlandsflugvalla með tilkomu varaflugvallargjalds og vinna hafin vegna endurbyggingar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá innviðaráðuneytinu.

Unnin verður þarfagreining með flugrekendum og flugafgreiðsluaðilum ásamt hönnunarundirbúningi. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fara 1.350 milljónir í uppbyggingu innanlandsflugvalla á næsta ári.

Undirbúningur vegna Sundabrautar mun halda áfram, þar sem unnið er að mati á umhverfisáhrifum, útfærslu valkosta, breytingum á skipulagsáætlunum auk samráðs við hagaðila. Í kjölfarið hefst undirbúningur útboðsferlis.

Ný Hvalfjarðargöng

Samkvæmt innviðaráðuneytinu gera áætlanir ráð fyrir að á árinu 2024 hefjist undirbúningur og rannsóknir vegna Siglufjarðarskarðsganga, Hvalfjarðarganga 2 og jarðganga milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur þannig að hægt verði að fara í framkvæmdir á þeim í framhaldi af gerð Fjarðarheiðarganga.

„Fjármögnun jarðgangaáætlunar er eitt af verkefnum í heildarendurskoðun tekjuöflunar af ökutækjum og umferð. Stefnt er að hóflegri gjaldtöku vegna þessarar uppbyggingar sem nánar verður útfærð í samvinnu innviðaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis,” segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Greinin birtist í blaðinu Orka & iðnaður, sem lesendur geta nálgast hér.