Kerfisbilun hjá Microsoft í morgunsárið hefur valdið töluverðri röskun á heimsvísu. Hingað til hafa United Airlines, American Airlines, KLM, Lufthansa og SAS kyrrsett flugvélar sínar sökum þess.
Þá hafa allar flugvélar í Zurich verið kyrrsettar og Baltic Hub, stærsta gámastöð Póllands í Gdansk, hefur stöðvað starfsemi.
Sky News í Bretlandi, sem féll niður í biluninni, er komið aftur í loftið líkt og ein af stöðvum breska ríkisútvarpsins BBC sem fór einnig niður.
Spítalar í Bretlandi og Þýskalandi hafa þurft að fresta aðgerðum og er unnið með blaði og penna víða um heim um þessar mundir samkvæmt BBC.
Enn sem komið er hafa engar fregnir borist af röskun á flugi hérlendis en samkvæmt vefsíðu Isavia eru öll flug á áætlun.
Hægt er að lesa meira um kerfisbilunina hér að neðan.