Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist hrædd um að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að beita 71. grein þing­skap­a­laga, svo­nefndu kjarn­orku­ákvæði, til að knýja í gegn atkvæðagreiðslu um veiðigjaldafrumvarpið hafi sett fordæmi sem muni skaða Alþingi til frambúðar.

„Aldrei hefur nein ríkisstjórn lagst svo lágt fyrir jafn vondan málstað eins og að hækka skatta,“ sagði Guðrún í ræðu á þinginu í morgun um ákvörðunina.

Guðrún sagði að óskrifuð pólitísk sátt hafi ríkt alla lýðveldissögu Íslands um að beiting ákvæðisins yrði eingöngu í ítrustu neyð. Í alla tíð hafi þingmenn sýnt því skilning að þingið eigi að vera „vettvangur umræðu en ekki þöggunar“.

„Hingað til hefur meirihlutinn virt þá hefð að leita sátta og samninga í stað þess að beita valdi til þess að þagga niður í meirihlutanum - allt þar til ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur tók við. Hún mun nú setja mark sitt á söguna sem fyrsta ríkisstjórn lýðveldisins sem fórnaði þingræðinu fyrir skattahækkun.“

Guðrún sagði Kristrúnu þannig hafa valið að beita úrræði sem hingað til hafi einungis verið notað í neyðartilvikum svo varði þjóðarhag „vegna þeirrar einföldu ástæðu að hæstvirtur forsætisráðherra var hvorki tilbúin í samtal né til að leita sátta“.

„Þetta er ekki neyðartilvik, þetta er ekki mál sem snertir þjóðaröryggi. Það er pólitísk ákvörðun tekin hér um að þagga niður í stjórnarandstöðu með þessum hætti. Ég er hrædd um að þessi vanhugsaða ákvörðun hafi sett fordæmi sem mun skaða Alþingi Íslendinga til frambúðar. Aldrei hefur nein ríkisstjórn lagst svo lágt fyrir jafn vondan málstað eins og að hækka skatta.“