Stefan Kaufmann, forstjóri japanska heilbrigðisfyrirtækisins Olympus, hefur sagt af sér eftir ásakanir um að hann hafi keypt inn ólögleg lyf. Þjóðverjinn hefur setið við forstjórastól frá því í apríl 2023 en fékk í dag beiðni frá stjórn fyrirtækisins um að víkja.
Að sögn Al Jazeera hefur Olympus verið með málið til rannsóknar eftir að hafa fengið nafnlausa ábendingu.
„Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar hefur stjórnin komist að þeirri ákvörðun að hegðun Stefan Kaufmann hafi ekki verið í samræmi við alþjóðlegar siðareglur okkar, grunngildi og fyrirtækjamenningu,“ segir í yfirlýsingu frá Olympus.
Stjórnarformaðurinn Yasuo Takeuchi mun taka við sem bráðabirgðaforstjóri á meðan stjórnin leitar að varanlegum arftaka.