Ástralska námufyrirtækið Resolute Mining segir að forstjóri fyrirtækisins, Terence Holohan, og tveir aðrir starfsmenn séu í haldi lögreglu í höfuðborg Malí, Bamako. Holohan og starfsmennirnir voru í landinu til að funda með námu- og skattayfirvöldum.
Samkvæmt fréttaflutningi WSJ vildu þeir einnig svara fyrir ákveðnar ásakanir á hendur fyrirtækisins, sem Resolute Mining heldur því fram að séu ósannar.
Fundurinn átti sér stað á föstudaginn en þegar honum lauk voru mennirnir settir í varðhald. Þeir eru nú í haldi yfirvalda hjá efnahags- og fjármálaráðuneyti landsins en samkvæmt breskum og alþjóðlegum sendiráðum njóta þeir góðrar meðferðar yfirvalda.
„Resolute hefur fylgt öllum opinberum reglum með tilliti til mála sinna og hefur veitt yfirvöldum ítarleg svör við öllum settum kröfum sem hafa verið lagðar fram,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.