Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, hefur blandað sér í umræðuna um Fossvogsbrú og gagnrýnir kostnaðaráætlun hennar á Facebook-síðu sinni. Hann ber kostnaðinn saman við kostnaðinn á Dýrafjarðargöngunum sem var töluvert minni.
„Undanfarið hafa birst fréttir um ætlaðan kostnað við byggingu brúar yfir Fossvog. Samkvæmt þeim mun 270 metra löng brúin kosta 8,8 milljarða króna, sem jafngildir 32,5 milljónum á lengdarmetrann.“
Til samanburðar kostaði lengdarmetrinn í Dýrafjarðargöngunum 2,2 milljónir króna árið 2021 og styttu þau Vestfjarðarveg um rúma 27 kílómetra. „Lengdarmetrinn í Fossvogsbrúnni verður sem sagt fimmtán sinnum dýrari en lengdarmetrinn í göngunum.“
Guðmundur segir þó að þar sem 9 kílómetra vegur hafi verið lagður sitt hvoru megin ganganna deilist heildarkostnaður við framkvæmdina í raun á 14,3 kílómetra en þá kostar lengdarmetrinn um 940 þúsund krónur.
„Metrinn í Fossvogsbrúnni er þá orðinn 35 sinnum dýrari en sá við vegabæturnar í Dýrafirði. Að jafnaði eru göng dýrari valkostur en brýr.“