Lággjaldaflugfélög hafa undanfarin ár gengið sífellt lengra til að koma fleirum að um borð. Í upphafi þessarar aldar voru að jafnaði 86 til 89 sentimetrar á milli sæta en í dag er dæmigert sætabil 76 til 79 sentimetrar. Þá eru dæmi um 71 sentimetra sætabil á styttri flugleiðum að því er segir í umfjöllun Bloomberg . Þá eru sætin einnig mjórri en þau voru, og hefur meðalbreidd þeirra lækkað 47 sentimetrum í 43 sentimetra.

Filippseyska flugfélagið Cebu Air hyggst nú færa til salerni og rýmið þar sem veitingar og varningur er alla jafna geymt til að koma fyrir fleiri farþegum. Í Airbus A330 flugvélum félagsins verða því sæti fyrir 460 manns, sem er 20 sætum meira en núverandi hámarksfjöldi vélanna leyfir.

Talið er að fleiri flugfélög, sér í lagi í Asíu muni fylgja á eftir til að koma fleiri farþegum um borð á vinsælustu flugleiðunum. „Markmiðið er að troða eins mörgum farþegum um borð og hægt er,“ segir Mathieu De Marchim hjá greiningarfyrirtækinu Landrum & Brown í Bangkok. „Þetta mun bara versna á næstu tíu árum.“

Aukin eftirspurn eftir flugi í Asíu hefur leitt til skorts á nær öllu tengdu flugi: Flugmönnum, vélvirkjum, flugbrautum, flugvöllum og svona mætti lengi telja. Talið er að á hverju ári á hverju ári fari hundrað milljón manns í Asíu fari í sína fyrstu flugferð. Flugfélög hafa því bæði brugðist við með því að kaupa stærri flugvélar og minnka sætaplássið.

Þetta hefur haft ýmiskonar afleiðingar í för með sér. Pirruðum farþegum hefur án vafa fjölgað og dæmi eru þess að lenda þurfi flugvélum vegna rifrilda farþega um hvort halla megi sætisbakinu. En flugfargjöld hafa líka lækkað.

Undanfarinn áratug hafa flugfargjöld hafa lækkað um meira en helming á mörgum flugleiðum. Hjá Cebu Air er hægt að kaupa miða fyrir undir hundrað dollara fyrir fjögurra tíma flug á milli Sjanghæ og Manila. Sætin eru þó ekki nema 42 sentimetra breið sem er fjórum sentimetrum minna en Airbus mælir með eigi að tryggja farþegum þolanlega flugferð.