Bandaríska íhaldssama fréttastöðin Newsmax hefur meira en tvöfaldað áhorf sitt í kjölfar brotthvarfs Tucker Carlson frá Fox News. Newsmax fékk til sín 247.000 áhorfendur á öðrum ársfjórðungi þessa árs, samanborið við 111.000 á sama tímabili í fyrra.
Newsmax segir að áhorf hafi stóraukist síðustu vikuna í apríl en seinasti þáttur Tucker Carlson á Fox News var 21. apríl.
„Við erum búin að sjá mikla aukningu eftir að Tucker fór og sýnir brotthvarf hans að stöðin (Fox News) hafi misst mikið af hans hörðustu stuðningsmönnum,“ segir Christopher Ruddy, framkvæmdastjóri Newsmax.

Ruddy stofnaði vefsíðuna Newsmax árið 1998 og árið 2014 var fréttamiðillinn orðinn að sjónvarpsstöð. Vinsældir stöðvarinnar jukust eftir síðustu forsetakosningar en Newsmax viðurkenndi ekki úrslit kosninganna fyrr en í desember 2020, mörgum vikum á eftir Fox News.
Áhorf Newsmax á öðrum ársfjórðungi þessa árs var hærra en það var í kringum kosningarnar 2020 þegar flestir áhorfendur voru dyggir stuðningsmenn Donalds Trump sem sögðust reiðir yfir niðurstöðum kosninganna. Tölur um áhorf á þeim tíma entust hins vegar ekki lengi.
Fréttastöðvarnar MSNBC og CNN hafa einnig fengið fleiri áhorfendur til sín. Áhorfendatölur MSNBC hækkuðu um tæplega 100 þúsund á öðrum ársfjórðungi og hækkaði meðaláhorf CNN um 2,4%.