Stjórnendur fyrirtækisins Campbell Soup Company, sem hefur verið starfrækt í 155 ár, áætla að breyta nafni sínu í The Campbell‘s Company. Ákvörðunin á að endurspegla vaxandi vörulínu fyrirtækisins, sem selur einnig sósur, snarl og drykki.

Samkvæmt BBC munu fjárfestar greiða atkvæði um nafnbreytinguna á ársfundi fyrirtækisins sem fer fram í nóvember.

„Við munum alltaf elska súpu og við munum aldrei taka augu okkar af þeim mikilvæga markaði. En í dag erum við svo miklu meira en bara súpa,“ segir forstjórinn Mark Clouse.

Campbell selur til að mynda hið sígilda gullfiskakex, Cape Cod-snakk og Prego-sósur. Að sögn forstjórans er súpusalan aðeins hugsuð til að viðhalda fjárhagslegum markmiðum fyrirtækisins.

Þá var Campbell fyrsta fyrirtækið til að selja niðursoðna súpu fyrir meira en öld síðan. Varan var einnig innblástur fyrir eitt af frægustu listaverkum bandaríska listamannsins Andy Warhol.