Framkvæmdir við Ölfusárbrú geta hafist eftir að Alþingi samþykkti í dag nauðsynlega lagabreytingu sem tryggir grundvöll fyrir fjármögnun brúarinnar og vegtenginga.

Á vef Stjórnarráðsins segir að undirbúningur verksins sé kominn vel á veg og að fyrsta skóflustunga vegna framkvæmdanna verði tekin miðvikudaginn kemur, 20. nóvember.

Með lagabreytingunni bætist við nýtt bráðabirgðaákvæði við lög um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, nr. 80/2020 (lagt fram í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld).

Með ákvæðinu er fjármála- og efnahagsráðherra, í samvinnu við innviðaráðherra, heimilt að undirgangast skuldbindingar fyrir ríkissjóð vegna útboðs á brú yfir Ölfusá og tengdum vegum á hringvegi gegn því að gjaldtaka af umferð um hana standi undir kostnaði í heild eða að lágmarki 50%.

„Það er ánægjulegt að gengið hafi verið frá útfærslu vegna fjármögnunar Ölfusárbrúar og tengivega við hana. Vegagerðin og verktakar fá nú grænt ljós til að hefja framkvæmdir. Nýja brúin er lykillinn að því að auka öryggi og greiða umferð fyrir alla landsmenn um Suðurland,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra.