Hagar, móðurfélag Bónuss, Hagkaups og Olís, högnuðust um 1.116 milljónir króna á þriðja fjórðungi rekstrarárs samstæðunnar sem nær 1. september til 30. nóvember 2023. Hagnaðurinn jókst um 12,7% frá sama tímabili ári áður þegar hann nam 910 milljónum. Hagar birtu uppgjör eftir lokun markaða í dag.

Velta smásölufyrirtækisins jókst um 8,6% milli ára og nam tæplega 43,7 milljörðum á fjórðungnum. Í afkomutilkynningunni kemur fram að seldum stykkjum í dagvöruverslunum fjölgaði um 3,6% milli ára og heimsóknum viðskiptavina fjölgaði sömuleiðis, eða um 8,6% á fjórðungnum. Þá fjölgaði seldum eldsneytislítrum fjölgaði um 1,6% á fjórðungnum.

Framlegð félagsins nam 9,1 milljarði og jókst um 24% milli ára. Framlegðarhlutfall Haga á fjórðungnum jókst því úr 18,2% í 20,7% á milli ára.

„Starfsemi Haga hf. á þriðja ársfjórðungi rekstrarársins 2023/24 gekk vel,“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga, í tilkynningu.

„Afkoma styrktist á fjórðungnum og var heldur umfram áætlun og fyrra ár, en EBITDA nam 3.230 m.kr. og hagnaður 1.116 m.kr. Í ljósi þess hve rekstrarumhverfi í dagvöruverslun hefur verið ögrandi, með áframhaldandi hækkun á verði aðfanga og rekstrarkostnaði á haustmánuðum, þá erum við ánægð með rekstur félagsins á fjórðungnum og það sem af er ári.“

Mikil tækifæri til vaxtar Eldum rétt – stækkuðu framleiðslurýmið

Í tilkynningunni fjallar Finnur m.a. um Eldum rétt sem Hagar keyptu árið 2022. Hagar tóku við rekstri Eldum rétt í nóvember 2022 og í fjárfestakynningu segir að aðlögun að samstæðunni hafi gengið vel. Þá segir að magnaukning hafi verið veruleg á árinu en nýjar vörur frá Eldum rétt hafi t.d. komið í verslanir.

„Rekstur var framar vonum á árinu og skilar mikilvægu framlagi til Haga,“ segir í fjárfestakynningunni. Bent er á að Eldum rétt sé hlutfallslega smá eining hjá samstæðunni „en er í miklum vexti og skilar ágætri afkomu“.

Nýlega var lokið við að stækka og bæta framleiðslurýmin Eldum rétt til að auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri, að því er segir í fréttatilkynningunni. Með stærri og bættum framleiðslurýmum hafi afkastagetan verið aukin til að anna eftirspurn.

„Fyrsta heila ári Eldum rétt sem hluti af Högum lauk í október og gekk vel, með mikilli fjölgun seldra matarpakka í samanburði við árið á undan,“ segir Finnur.

„Félagið er frábær viðbót við þjónustuframboð Haga og velgengni síðasta árs endurspeglar ánægju viðskiptavina og þá staðreynd að stöðugt fleiri landsmenn nýta Eldum rétt til að auðvelda og bæta matseld á heimilum. Til að anna eftirspurn voru framleiðslurými stækkuð á síðasta ári, en við sjáum mikil tækifæri til frekari vaxtar Eldum rétt á næstu mánuðum og misserum.“

Frá vinstri eru frá Högum þau Sesselía Birgisdóttirm, þáverandi forstöðumaður nýsköpunar og markaðsmála, Magnús Magnússon, framkvæmdastjóri stefnumótunar og rekstrar, og Finnur Oddsson forstjóri, ásamt Vali Hermannssyni og Kristófer Júlíusi Leifssyni, stofnendum Eldum Rétt.
Frá vinstri eru frá Högum þau Sesselía Birgisdóttirm, þáverandi forstöðumaður nýsköpunar og markaðsmála, Magnús Magnússon, framkvæmdastjóri stefnumótunar og rekstrar, og Finnur Oddsson forstjóri, ásamt Vali Hermannssyni og Kristófer Júlíusi Leifssyni, stofnendum Eldum Rétt.
© Aðsend mynd (AÐSEND)