Að jafnaði yfir 15 ára tímabil sem breska fyrirtækið ClearGlass rannsakaði námu þóknanir framtakssjóða – að öllu meðtöldu – frá 3 og allt upp í 10% af heildareignum á hverju ári.

Stofnandi ráðgjafafyrirtækisins, Christopher Sier, segir almennt ekki ríkja mikinn skilning á þóknanakerfum framtakssjóða og að kostnaðurinn sé heilt yfir mun meiri en flestir hefðu búist við þegar upp er staðið. Að teknu tilliti til þóknunarinnar segir Sier sjóðina hafa skilað að meðaltali um 12-15% árlegri ávöxtun.

Sier segist safna og búa yfir miklu magni gagna um slík starfsemi og viðskiptahætti framtakssjóða í Bretlandi enda starfar ClearGlass með um það bil þúsund þarlendum lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðakerfið þar sé nokkuð svipað í grunninn og hér á landi og þar, rétt eins og hér, fjárfesti sjóðirnir þónokkuð í framtakssjóðum.

„Við höfum raunar verið að vinna fyrir nokkra íslenska lífeyrissjóði frá því í fyrra. Eftir því sem ég kemst næst hefur það hins vegar aldrei verið rannsakað eða tekið saman hvert virði þeirrar þjónustu sem slíkir sjóðir veita er á Íslandi í samanburði við þær þóknanir sem þeir taka, hvort sem það er af lífeyrissjóðum eða öðrum.“

Á fyrirlestri sínum fór Chris því yfir þær tölur sem ClearGlass hefur safnað og rannsakað í því tilliti fyrir Bretland og kynnti helstu niðurstöður þeirrar greiningar. Um var að ræða bæði heildarkostnað á ársgrundvelli og sundurliðun hans yfir 15 ára tímabil.

„Ég fór svo yfir samband kostnaðar og þess árangurs sem sjóðunum tókst að ná fyrir hönd viðskiptavina sinna, og hvernig það mynstur hefur þróast í gegn um árin.“

Í Bretlandi hefur framtakssjóðum um árabil verið gert hátt undir höfði, en síðustu misseri segir Sier stöðuna þó hafa verið að dekkna fyrir marga þeirra.

„Eins og staðan er í dag hefur framtakssjóðum verið sýndur mikill áhugi, ekki síst í krafti áherslu stjórnvalda á að lífeyrissjóðir beini fjármunum sjóðfélaga þangað, sem aftur byggir á þeirri viðteknu trú að með því séu þeir að fjárfesta í breskum fyrirtækjum og þar með hinu breska raunhagkerfi.“

Athugun Chris og Clearglass hafi hins vegar sýnt að bróðurpartur þeirra fjármuna endi utan landsteinanna. Stærstur hluti – um helmingur allra slíkra fjárfestinga í Bretlandi – fari vestur um haf til Bandaríkjanna og fimmtungur til viðbótar til annarra landa, svo aðeins 30% sitji raunverulega eftir innan breska hagkerfisins.

„Virðist ekki hafa verið mikið á bak við þetta“

Aðspurður hvaðan sú hugmynd hafi komið að fjárfesting í framtakssjóðum fæli í sér sérstakan stuðning við hið breska raunhagkerfi getur Chris ekki varist hlátri og segir það erfitt að segja.

„Þegar stórt er spurt... Það virðist ekki hafa verið mikið á bak við þetta. Það hefur aldrei verið bent á nein gögn eða annað þessu til stuðnings, enda kemur á daginn að það er lítið sem ekkert til í þessu.“

Þau beinhörðu gögn sem Clearglass hafi safnað sýni þvert á móti að þessir peningar leiti að mestu leyti annað. „Fjárfesting í breskum framtakssjóðum er fjárfesting í atvinnulífi Bandaríkjanna og heimsins alls miklu frekar en í því breska.“

Chris segir eftirspurn eftir framtakssjóðum sem fjárfestingakostum hafa skroppið verulega saman síðastliðið ár, ekki síst þar sem hækkandi vextir hafi keyrt niður markaðsverð skuldabréfa í eignasöfnum breskra lífeyrissjóða og þannig stóraukið hlutfall óskráðra eigna af heildareignum sjóðanna að eða umfram þau mörk sem þeim eru sett hvað það varðar.

„Í einhverjum tilfellum tvöfaldaðist hlutdeild eignaflokksins, án þess að bókfært virði hans tæki nokkrum breytingum. Það er vandamál. Ef hlutdeild óskráðra eigna tvöfaldast yfir nótt hjá lífeyrissjóði þá er hún einfaldlega orðin alltof mikil.“