Framtakssjóðurinn Horn IV slhf. hefur gengið frá kaupum á 22% hlut í fyrirtækinu S4S ehf. sem rekur verslanirnar Steinar Waage, Kaupfélagið, Ecco, Skechers og Toppskóinn, ásamt AIR verslununum og Ellingsen í Reykjavík og á Akureyri. Dótturfélag fyrirtækisins er S4S tæki ehf. sem rekur tækjasölu og verkstæði BRP Ellingsen.

Greint er frá þessu í fréttatilkynningu þar sem jafnframt segir að velta S4S-samstæðunnar árið 2021 hafi verið tæpir fimm milljarðar króna.

Eftir viðskiptin mun Horn IV eins og fyrr segir eiga 22% hlut í félaginu en við kaupin voru annars vegar keyptir hlutir af núverandi hluthöfum og hins vegar var hlutafé hækkað og skrifaði Horn IV sig fyrir allri þeirri hækkun. Eftir sem áður eru Pétur Þór Halldórsson, forstjóri félagsins, og Sjávarsýn ehf., eignarhaldsfélag Bjarna Ármannssonar, stærstu hluthafar félagsins.

Horn IV er 15 milljarða framtakssjóður í rekstri Landsbréfa sem fjárfestir í óskráðum íslenskum fyrirtækjum með góða rekstrarsögu. Auk þess er lögð áhersla á að fyrirtæki sem sjóðurinn fjárfestir í tileinki sér sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð í starfsemi sinni og mun sjóðurinn styðja félögin í að ná umbótum á sviði UFS-þátta. Sjóðurinn hóf starfsemi á árinu 2021 og yrði þetta önnur fjárfesting sjóðsins en fjárfestingartímabil hans er til loka júlí 2025.

S4S hefur vaxið mikið á undanförnum árum og þá sérstaklega í netverslun en S4S rekur netverslanirnar S4S.is, Skór.is, Ellingsen.is, Air.is, BRP.is og Rafhjólasetur.is. Nýlega opnaði félagið nýja verslun í Smáralind sem þjónustar netverslunarhluta fyrirtækisins. Stefnt er að áframhaldandi vexti félagsins og fyrirhugað er að skrá það á hlutabréfamarkað innan fárra ára.

„Við hjá S4S erum mjög ánægð með þessa niður­stöðu og hlökk­um til að starfa með Horni IV að áframhaldandi uppbyggingu og rekstri fé­lags­ins. S4S byggir á rótgrónum og traustum grunni íslenskra verslana sem bjóða uppá gæða vörumerki í skóm, fatnaði, útivistarvörum og ferðatækjum.

Saman hafa þessar einingar náð góðum árangri, sérstaklega síðustu fimm ár með innri og ytri vexti. Lykillinn að þessum árangri er dugnaður og þrautseigja okkar starfsfólks sem leggur sig fram alla daga við að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu. Sömuleiðis höfum við átt og munum áfram eiga í góðu samstarfi við okkar birgja.

Við ætlum að vaxa enn frekar, styrkja innviði fyrirtækisins og halda þannig áfram að veita viðskiptavinum okkar frábæra þjónustu. Horn framtakssjóður er góður ferðafélagi fyrir okkar vegferð og mun hann leggja sitt af mörk­um við að styrkja og efla starf­semi fé­lags­ins enn frek­ar á já­kvæðan hátt fyr­ir fyr­ir­tækið í heild, starfs­fólk þess og viðskipta­vini," segir Pétur Þór Halldórsson forstjóri S4S, í fréttatilkynningu.

„S4S er leiðandi fyrirtæki á smásölumarkaði og rekstur félagsins traustur. Framtíðarsýn S4S er skýr og hefur félagið náð mjög góðum árangri í að aðlagast breyttri kauphegðun líkt og aukin netsala félagsins ber vitni um. S4S býr yfir reynslumiklu og öflugu starfsfólki, sterkum innviðum auk fjölda vel staðsettra verslana með þekkt vörumerki. Fram undan eru spennandi tímar og hlökkum við til samstarfsins við hluthafa og starfsfólk félagsins og teljum að nýtt hlutafé muni styrkja S4S enn frekar á vegferð komandi ára," er haft eftir fjárfestingastjórum Horns IV.

Fjármálaráðgjöf Deloitte hafði umsón með söluferlinu og fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var ráðgjafi kaupanda.