Alþjóðlegu umhverfissamtökin CDP hafa gefið Landsvirkjun A í einkunn fyrir stýringu eigin loftslagsáhrifa og afleiðinga loftslagsbreytinga á starfsemi fyrirtækisins fyrir 2023. Þetta er annað árið í röð sem Landsvirkjun fær hæstu einkunn en árið 2021 fékk fyrirtækið A-.
Einkunnin A þýðir að fyrirtæki telst til leiðandi fyrirtækja í loftslagsmálum á heimsvísu.
CDP-samtökin voru stofnuð árið 2000 sem Carbon Disclosure Project en samtökin hafa það að markmiði að stuðla að samræmdri og faglegri upplýsingagjöf um umhverfismál, ásamt því að veita endurgjöf og hvetja til stöðugra umbóta.
„Framtíðarsýn Landsvirkjunar er sjálfbær heimur, knúinn endurnýjanlegri orku. Við teljum stærsta framlag orkufyrirtækis þjóðarinnar til sjálfbærrar þróunar vera að taka ábyrgð í loftslagsmálum, enda eru orkumál loftslagsmál,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Landsvirkjun fékk fyrst mat frá samtökunum árið 2016 en á síðasta ári skiluðu rúmlega 23 þúsund fyrirtæki inn upplýsingum um loftslagsmál til samtakanna.