Franskir bændur mótmæltu fyrirhuguðum verslunarsamningi milli Evrópusambandsins og Mercosur-ríkja víða um Frakkland í dag. Mercosur er efnahagsbandalag nokkurra ríkja í Suður-Ameríku.

Bændurnir segja að ódýrari innfluttar landbúnaðarvörur frá Suður-Ameríku muni skerða lífsgæði þeirra en svipuð gremja var meðal bænda um alla Evrópu þegar byrjað var að auka innflutning frá Úkraínu.

Ástandið hefur þó verið sérstaklega erfitt fyrir franska bændur en þeir hafa undanfarið ár þurft að þola mikla rigningu, búfjársjúkdóma og seinkun á þingkosningum sem leiddu til þess að ráðstafanir sem þeim var lofað skiluðu sér ekki í tæka tíð.

„Við erum með sömu kröfur og við vorum með í janúar. Það hefur ekkert breyst. Við verðum að láta stjórnvöld skilja að við séum komin með nóg,“ segir Armelle Fraiture, mjólkurbóndi norðan við París.