Ívar Kristjánsson, forstjóri 1939 Games, segir að til hafi staðið að gefa leikinn KARDS út á Epic leikjaveitunni þann 8. mars en því hafi verið slegið á frest í nokkrar vikur þar sem Epic menn vildu ekki gefa út neina leiki sem tengjast stríði. Þó svo að KARDS sé í raun strategíuleikur með rafrænum spilum er sögusvið leiksins síðari heimsstyrjöldin. Einnig hefur 1939 Games tekið tímabundið út allt markaðsefni tengt Sovétríkjunum.

„Við erum í fjármögnunarferli núna þannig að þetta hefur ekki áhrif á fjármögnun hjá okkur. Við erum með alþjóðlegan hóp fjárfesta - Finna, Kóreumenn, Kínverja, Svía og Íslendinga en erum ekki með rússneska fjárfesta, sem ég hef heyrt að hafi flækt málin fyrir einhver leikjafyrirtæki. Við stöndum því ekki frammi fyrir þeirri ákvörðun að þurfa að hafna fjármagni vegna uppruna þess eins og sum leikjafyrirtæki eru að lenda í um þessar mundir. Ég hef heyrt af erlendum leikjafyrirtækjum sem þurfa að taka slíkar ákvarðanir. Þá hvort þiggja eigi fjármagn frá Rússlandi eða að fjármagn sem þegar hefur verið lofað frá rússneskum fjárfestum skili sér ekki sem getur haft mikil áhrif á áætlanir fyrirtækjanna," segir Ívar.

Að sögn Ívars er 1939 Games með samstarfsaðila í Úkraínu sem sér um gæðaprófanir og lokuðu þeir starfsstöð sinni í 2-3 daga eftir innrásina en fóru síðan aftur af stað. Þeir séu staðsettir í Kýiv en það komi fólki hérlendis mikið á óvart þegar það heyrir af þeirra störfum inni á átakasvæðinu.

„Fyrirtækið sem við erum að vinna með hefur fært starfsfólk til vegna átakanna til að tryggja sem best starfsöryggi en meðan þeir geta starfað munum við styðja við bakið á þeim og halda viðskiptum okkar áfram.