Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, fer hörðum orðum um frumvarp atvinnuvegaráðherra um breytingar á veiðigjöldum.
Hann segir útreikninga í greinargerð frumvarpsins ranga og samanburð við norskar verðtölur beinlínis villandi. Greinin, sem ber heitið Leiðréttingin leiðrétt, birtist á Vísi og varpar ljósi á það sem hann kallar alvarlegar rangfærslur af hálfu stjórnvalda.
Rangur samanburður við Noreg
Í greininni gagnrýnir Sigurgeir þá aðferð sem notuð var í greinargerð með frumvarpinu til að meta verðmæti makrílafla Íslendinga.
Þar er meðal annars fullyrt að verðmyndun á Íslandi gefi ekki rétta mynd af raunverulegu markaðsverði og að norsk verð séu betri viðmiðun. Þetta telur Sigurgeir ranga forsendu:
„Meginniðurstaða greinarinnar er að verðmæti íslensks makríls upp úr sjó er um 70% af útflutningsverðmæti þess norska en ekki um 90% eins og útreikningar atvinnuvegaráðuneytisins sýna. Það er því fullkomlega röng niðurstaða í greinargerð atvinnuvegaráðherra að „miðað verði við markaðsverð í Noregi til að nálgast betur raunverulegt aflaverðmæti þeirra tegunda sem fjallað er um“ enda er fátt sameiginlegt með vinnslu, veiðum og markaðssetningu Íslendinga og Norðmanna á makríl, annað en að tegundin er sú sama. Rangar tölur geta aldrei verið grundvöllur skattlagningar.“

„Jú, mismunurinn, rúmlega 40%, fór í bræðslu sem fráflokkaður skemmdur makríll, hausar og slóg frá hausuðum makríl og afskurður frá flökun. Og hverju breytir það? Jú, það breytir öllu.“
Af þessum sökum telur hann ófært að nota norskt verð sem mælikvarða og kallar eftir því að „bera saman epli og epli“ í stað þess að samanburðurinn sé gerður á milli ósambærilegra afurðaflokka.

Endurútreikningar Vinnslustöðvarinnar sýna aðra niðurstöðu
Vinnslustöðin hefur samkvæmt greininni framkvæmt sjálfstæða greiningu á útflutningsverði íslensks makríls. Þar eru bæði vinnsluafurðir og afgangsafli sem fer í bræðslu teknir með í reikninginn, líkt og gera þarf til að meta raunverulegt aflaverðmæti.
Samkvæmt niðurstöðum þeirrar greiningar var meðalverð íslenskra makrílafurða á árunum 2020–2024 aðeins 72% af því sem fékkst í Noregi. Ef aðeins er horft til síðustu þriggja ára er þetta hlutfall 68%.

„Það er því augljóst öllu sæmilega þenkjandi fólki að fullyrðingar atvinnuvegaráðuneytisins í greinargerðinni um að verð á makríl „á Íslandi gefi ekki rétta mynd af raunverulegu markaðsverði' og að „þannig afgerandi vísbendingar um að verðmyndun á Íslandi endurspegli ekki raunverulegt aflaverðmæti þessara nytjastofna“ eru rangar. Hér stendur ekki heldur steinn yfir steini.“
Vantraust á aðferðafræði stjórnvalda
Í niðurlagi greinarinnar gerir Sigurgeir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð ráðuneytisins við samningu frumvarpsins. Hann telur þau „illa unnin“, byggð á röngum forsendum og ófær um að skapa réttlátan grundvöll fyrir skattlagningu.
„Frumvarpið er illa unnið, útreikningar rangir og útfærslan skaðleg og útreikningur atvinnuvegaráðuneytisins getur aldrei verið grundvöllur skattlagningar af neinum toga.“
Hann bendir jafnframt á að tölulegar upplýsingar í frumvarpinu séu jafnvel þegar orðnar úreltar, þar sem Hagstofa Íslands hafi uppfært útflutningstölur um makríl eftir að frumvarpið var lagt fram, en þær breytingar séu hvergi teknar upp í lögskýringargögnum.
Hægt er að lesa grein Binna í heild sinni hér.
