Flokkur fólksins og Viðreisn hafa bætt við sig mestu fylgi á síðustu dögum samkvæmt nýrri könnun Maskínu, en hvor flokkur um sig bætti við sig 2-3 prósentustigum frá fyrri könnun. Viðreisn mælist nú með 16,2% fylgi og Flokkur fólksins með 9,3%.

Píratar tapa rúmlega tveimur prósentustigum og fara úr 6,8% í 4,5%. Flokkurinn þarf 5% fylgi í komandi kosningum til að komast inn á þing.

Fram kemur að fylgi Samfylkingarinnar sé marktækt meira en fylgi annarra flokka. Samfylkingin mælist með 22,2% fylgi samanborið við 22,8% í könnuninni þar á undan. Ekki sé marktækur munur á fylgi Viðreisnar, Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Könnunin fór fram dagana 22. til 28. október 2024 og voru 1.708 svarendur sem tóku afstöðu til flokks.

Leiðrétt: Fylgi Viðreisnar var vitlaust gefið upp í upphaflegu útgáfu fréttarinnar.