Verðmæti eignarhlutar Brunns vaxtasjóðar í augnlyfjafyrirtækinu Oculis er nú metið á 3,4 milljarða króna eftir að tilkynnt var í vikunni um fyrirhugaðan samruna þess við sérhæfða yfirtökufélagið EBAC en með því verður félagið skráð í Nasdaq-kauphöllina í Bandaríkjunum.

Brunnur leiddi fyrstu fjármögnunarlotu fyrirtækisins og hefur fylgt þeirri fjárfestingu eftir með frekari fjárfestingu í annarri og þriðju fjármögnunarlotu. Fjárfesting Brunns mun að skráningu lokinni hafa hækkað um 2,2 milljarða króna að óbreyttu. „Verði niðurstöður næstu rannsókna á næsta ári jákvæðar verður það tilefni til verulegrar hækkunar á virði félagsins til viðbótar,“ segir Árni Blöndal annar stofnenda Brunns.

Boltinn loks að rúlla eftir 13 ár í þróun

Brunnur var með fyrstu fjárfestunum sem sýndu Oculis teljandi áhuga og kom félaginu með því á kortið hjá erlendum fjárfestum.

Árni hafði vitað af Oculis lengi og þegar fyrsti vísisjóður Brunns leit dagsins ljós árið 2015 varð honum því fljótt hugsað til félagsins. Þrátt fyrir að hafa verið stofnað 2003 og sóst nokkuð eftir fjármögnun hafði það á þeim tíma enn ekkert utanaðkomandi fjármagn fengið, ef frá eru taldir styrkir frá Tækniþróunarsjóði.

„Ég velti því alltaf fyrir mér af hverju þeir hefðu ekki fengið fjármögnun. Okkur fannst þetta áhugavert fjárfestingatækifæri, en þótti hugmyndir þeirra um verðlagningu félagsins kannski full metnaðarfullar þegar við höfðum fyrst samband.“

Eftir frekari viðræður náðist þó loks samkomulag um aðkomu Brunns sem lagði félaginu til 350 milljónir króna, tæp 9% af heildarstærð hins nýstofnaða vísisjóðs.

Hafa sett fjórðung sjóðsins í Oculis

Sumarið 2016 leiddi Brunnur félagið svo í sinni fyrstu fjármögnunarlotu sem skilaði 5 milljónum dala. Önnur lotan átti sér stað í tveimur hlutum næstu tvö árin og skilaði alls um 45 milljónum dala, og árið 2021 söfnuðust 60 milljónir dala því til viðbótar í þriðju lotu.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Brunnur hefur tekið þátt í öllum lotunum og sett alls 1,2 milljarða í félagið, helming þess í þeirri síðustu. Það jafngildir tæpum fjórðungi heildarstærðar vaxtarsjóðsins eftir að hann var stækkaður í 5 milljarða.

Sprotafjárfestingar eru eins og flestir vita afar áhættusamar en geta að sama skapi verið afar arðbærar.

„Þegar eitthvað virkar þá skiptir sköpum að fylgja fjárfestingunni eftir með áframhaldandi fjárfestingu og vinnu,“ segir Árni.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.