Sam­tök at­vinnu­lífsins, Sam­tök iðnaðarins, Sam­tök ferða­þjónustunnar, Sam­tök fyrir­tækja í sjávar­út­vegi, Sam­tök verslunar og þjónustu, Samorka og Við­skipta­ráð Ís­lands leggjast al­farið gegn lögum um rýni á fjár­festingum er­lendra aðila vegna þjóðar­öryggis og alls­herjar­reglu.

Í sam­eigin­legri at­huga­semd með frum­varpinu segja sam­tökin að gildissvið laganna sé óskýrt, ráðhera veitt afar víð­tækar heimildir og að lögin séu líkleg til að fæla erlenda fjárfestingu frá.

„Gildis­svið fyrir­hugaðra laga er að mati sam­takanna enn ó­skýrt og of víð­tækt og það eitt og sér getur haft mjög hamlandi og þar með nei­kvæð á­hrif á er­lenda fjár­festingu á Ís­landi. Ó­vissa um túlkun og gildis­svið er ó­á­sættan­leg með öllu fyrir ís­lenskt at­vinnu­líf,” segir í um­sögn sam­takanna.

Segja sam­tökin til­efnið fyrir laga­setninguna virðast fyrst og fremst stafa af er­lendri réttar­þróun og hvetja ís­lensk stjórn­völd til að móta skýra sýn og stefnu með til­liti til er­lendrar fjár­festingar sem hefur al­mennt hvetjandi á­hrif.

„Nýjar reglur á þessu sviði þurfa að hafa það að mark­miði að auka fyrir­sjáan­leika um hvers konar hindranir kunni að vera í vegi er­lendra aðila sem hafa á­huga á að fjár­festa á Ís­landi. Fyrir­huguð lög­gjöf gerir hið gagn­stæða og mun skapa ó­vissu um skil­yrði til fjár­festinga á Ís­landi.”

Sam­tökin vona að hvers kyns laga­setning sem snýr að að fjár­festingum er­lendra aðila leiði til ein­földunar, heildar­skoðunar og rýni á reglu­verki er snýr að fjár­festingum er­lendra aðila í at­vinnu­rekstri heilt yfir.

„Fjár­festing er grund­völlur fram­fara og lífs­kjara­sóknar. Al­þjóð­leg sam­keppni ríkir um fjár­magn og það hversu eftir­sóknar­verð fjár­festing er ræðst að miklu leyti af þeirri lagaum­gjörð sem er til staðar hvað varðar fjár­festingu og at­vinnu­rekstur í hverju landi fyrir sig. Því þarf að vanda sér­stak­lega til verka þegar kemur að lög­gjöf sem snýr að fjár­festingar­um­hverfi og ganga úr skugga um að á­batinn af slíkri lög­gjöf sé meiri en kostnaðurinn.”

Sam­tökin fara í löngu máli yfir alla helstu galla frum­varpsins en gildis­svið þess er ó­skýrt, mats­kennt til hvaða rekstrar­aðila lögin taka og það orkar tví­mælis að ráð­herra eigi að af­marka gildis­svið nánar í ljósi þess að frum­varpið mælir fyrir um um tak­markanir á stjórnar­skrár­vörðum réttindum.

„Af lestri frum­varpsins er hvorki ljóst hvers konar gögn er­lendi aðilinn þarf að láta í té í tengslum við til­kynningar­skyldar ráð­stafanir né heldur hvernig ráð­herra muni kanna orð­spor er­lenda aðilans eða reynslu af sam­bæri­legum fjár­festingum er­lendis.”

Þá er ráð­herra jafn­framt veitt afar víð­tæk heimild til þess að afla frekari upp­lýsinga í lögum og mælt fyrir í 11. gr. að ráð­herra er heimilt að „krefja er­lendan aðila um allar upp­lýsingar sem nauð­syn­legar þykja við með­ferð og úr­lausn máls.“

Ekki liggur fyrir í frum­varpinu hvort fé­lag, þar sem þjóðar­sjóður telst vera einn endan­legra eig­enda (raun­veru­legur eig­andi), skuli teljast vera opin­ber aðili og ef svo er hvar þau mörk eignar­hlutar skuli liggja.

„Þá er að sama skapi ó­ljóst hvort telja skuli fé­lag þar sem þjóðar­sjóðir fara saman­lagt með meira en 25% endan­legan eignar­hlut, en þó enginn einn þjóðar­sjóður með meira en 25% eignar­hlut, sem er­lendan opin­beran aðila í skilningi laganna.”

Verði frum­varpið að lögum munu er­lendir aðilar ekki geta gert samninga við ýmsa inn­lenda aðila nema með fyrir­vara um sam­þykki ráð­herra sem kann að taka allt að 100 virka daga að veita. Í heimi við­skipta eru 100 virkir dagar langur tími og kann margt að breytast á þeim tíma.

Þá falla einnig ýmsir sam­starfs­samningar og birgja­samningar undir lögin. Inn­lendir rekstrar­aðilar sem starfa á við­kvæmu sviði munu þurfa að til­kynna samninga við er­lenda birgja, hönnuði, byggingar­aðila, rekstrar- eða þjónustu­aðila sem eru lengri en til 24 mánaða þrátt fyrir að efni samninganna veiti við­semjanda ekki yfir­ráð yfir inn­lenda rekstrar­aðilanum.

„Í ljósi þess hve lítið Ís­land er og svo þess flækju­stigs sem fylgja mun samninga­gerð við inn­lenda rekstrar­aðila sem starfa á við­kvæmu sviði verði frum­varpið að lögum er hætta á að er­lendir aðilar telji það ekki ó­maksins virði að semja við inn­lenda rekstrar­aðila.”