Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að þegar horft sé tilbaka þá hafi rekstur íslenska raforkukerfisins verið einstaklega farsæll.
„Almenningur og smærri fyrirtæki hafa búið við lægsta og stöðugasta raforkuverð á Norðurlöndunum og þó víðar væri leitað, við höfum verið eina landið í Evrópu sem hefur boðið alþjóðlegum stórnotendum samkeppnishæft raforkuverð og svo hafa nýir orkuframleiðendur haft greiðan aðgang að markaðnum,“ segir Hörður. „Og þetta gerum við allt með 100% endurnýjanlegri orku í einangruðu kerfi sem er líklega einstakt í heiminum.“
Að sögn Harðar takmarkast kerfið fyrst og fremst af framboði orku en síður af framboði afls þar sem náttúruöflin, aðallega innrennsli í miðlunarlón, ráði orkuframboði frá ári til árs.
„Það getur verið mjög breytilegt milli ára og bara til að gefa hugmynd um hversu mjög við erum háð náttúrunni, þá má nefna að á Íslandi eru framleiddar og notaðar um 20 TWst á ári af raforku en innrennsli í miðlunarlón getur hæglega sveiflast um 4 TWst milli ára.
Við höfum því þurft að sníða okkur stakk eftir vexti og sett upp viðskiptaumhverfi með raforku sem endurspeglar eðli kerfisins. Langtímasamningar með fyrirsjáanlegu verði og blöndu af forgangsorku, sem afhent er með mikilli vissu, og skerðanlegri orku, sem hægt er að skerða í slæmum vatnsárum, hafa virkað mjög vel og tryggt skilvirka nýtingu kerfisins.“
Hörður segir að breytingar á markaðsumhverfinu hafi orðið í þremur bylgjum.
„Fyrsta bylgja leiddi til aukinnar samkeppni í framleiðslu með lagabreytingu 2003. Önnur bylgja leiddi til aukinnar samkeppni í smásölu árið 2017 þegar ný smásölufyrirtæki tóku til starfa. Þessi aukna samkeppni hefur verið neytendum til hagsbóta en raforkuverð lækkaði töluvert þegar þau komu inn á markaðinn. Þriðja bylgjan hófst svo með tilkomu markaðstorga árið 2023, fyrst Vonarskarðs og síðan Elmu. Þessi markaðstorg eiga svo væntanlega eftir að þróast í takt við þarfir markaðarins.“
Notendahliðin breyst
Spurður hvernig hann sjái markað með raforku þróast í framtíðinni svarar Hörður:
„Á undanförnum árum hefur notendahliðin breyst töluvert með tilkomu minni og kvikari aðila á stórnotendamarkaði, sem geta byggst hratt upp og aukið eftirspurn hratt. Fyrirsjáanleiki í eftirspurn er því minni en áður, sem getur ógnað orkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja. Þar má nefna sem dæmi blöndu af stuttum og meðallöngum PPA samningum við gagnaver og landeldisfyrirtæki, sem eru í eðli sínu frábrugðin hefðbundnari stórnotendum með lengri samninga. Notkun þessara aðila er ekki jafn stöðug og til dæmis álvera.
Til viðbótar við breytingar á notendahlið munum við væntanlega sjá breytingar á framleiðsluhlið raforku með tilkomu vindorkuvera.“
Hörður segir mikilvægt að leggja áfram áherslu á að tryggja samkeppnishæfa orkuframleiðslu.
„Áherslan þarf að vera á að nýta áfram hagkvæma virkjanakosti í vatnsafli, jarðvarma og vindi á landi. Þau alþjóðlegu fyrirtæki sem starfa á Íslandi sem og ný fyrirtæki sem mögulega koma til Íslands starfa hér eingöngu ef í boði er samkeppnishætt raforkuverð og raforkuflutningur.
Þessar breytingar kalla aftur á nýjar tæknilausnir og fjölbreyttari þjónustu á raforkumarkaði, t.a.m. vegna jöfnunar vindorku.“
Búa þarf til skýrari ramma
Þrátt fyrir töluverðar breytingar þá þarf ekki að kollvarpa því skilvirka kerfi sem við höfum komið okkur upp hér á landi að sögn Harðar.
„Allar breytingar, sem við gerum á viðskiptaumhverfinu, þurfa að vera gerðar með hagsmuni raforkukaupenda að leiðarljósi en ekki milliliða eða raforkuframleiðenda. Það er skynsamlegra að búa til skýrari ramma í kringum það kerfi sem fyrir er og prjóna nýjar lausnir við það eftir þörfum.“
Spurður hvort markaður með raforku sé virkur og hvernig sú virkni snúi að fyrirtækjum og einstaklingum svarar Hörður: „Viðskiptaumhverfið á Íslandi hefur frá setningu raforkulaganna 2005 skilað íslenskum raforkukaupendum hagkvæmasta og fyrirsjáanlegasta raforkuverði sem þekkist í Evrópu, allt frá almenningi til álvera. Það hlýtur að þýða að viðskiptaumhverfið hafi virkað vel.
Það hefur skilað blöndu af framvirkum viðskiptum með miklum fyrirsjáanleika og viðskiptum til skemmri tíma sem taka meira mið af punktstöðu kerfisins. Sem dæmi má nefna að í lok árs 2024 gaf Orkustofnun út raforkuvísa um stöðu kerfisins. Þar kom í ljós að um 90% viðskipta almenna markaðarins fyrir árið 2025 höfðu þá þegar átt sér stað í gegnum markaðstorg eða verið tryggð innan sölufyrirtækja með eigin vinnslu. Á sama tíma höfðu um 65% viðskipta fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2026 þegar farið fram.
Þetta þýðir að meginþorri viðskipta á almennum markaði heimila og smærri fyrirtækja er gerður með góðum fyrirvara og hefur því sterka tengingu við langtíma kostnaðarverð uppbyggingar orkuvinnslu. Þetta fyrirkomulag gefur aðilum, hvort sem er á kaup- eða söluhlið, vissu og stöðugleika auk þess sem það tryggir raforkuöryggi til lengri tíma, sem er einmitt meginstefið í orkustefnu Íslands.“

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Fara á varlega í að færa kosti úr bið í vernd
Hörður segir að hið sama gildi auðvitað um orkuvinnsluna.
„Stjórnvöld þurfa að meta orkuþörf fram í tímann og orkuöflunarviljinn verður þá að vera í samræmi við hana. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að halda biðflokki rammaáætlunar stórum og fara varlega í að færa kosti úr bið í vernd. Rammaáætlun á að vera tæki til að raða hagkvæmustu og bestu virkjunarkostunum sem hafa jafnframt minnst rask í för með sér.
Ég nefni hér sem dæmi Kjalölduveitu, sem er hagkvæmasti virkjunarkostur okkar í rammaáætlun. Hún bætir nýtni núverandi miðlana og virkjana á Þjórsársvæði. Kjalölduveita hefur samt ekki verið tekin til efnislegrar meðhöndlunar hjá verkefnastjórn vegna áhrifa á Þjórsárver, þrátt fyrir að mannvirkin séu staðsett langt frá verunum og hafi raun engin áhrif á þau. Við höfum fært sterk rök fyrir því að þetta sé kostur sem ætti að fara í biðflokk svo það sé hægt að rannsaka hann frekar.
Sama má segja um Skatastaðavirkjun. Þetta er mjög góður virkjunarkostur, utan eldvirka beltisins og á röskuðu svæði þar sem íbúar hafa þegar reynt að hemja árnar með ýmsum varnargörðum og mannvirkjum. Þetta er líklega besti framtíðar virkjunarkostur á landinu til að skapa sveigjanleika í afli fyrir orkuskipti og vindorku. Að mínu mati er mögulegt að útfæra báða þessa kosti þannig að umhverfisáhrifin af þeim verði ásættanleg í huga yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar.
Ríkisstjórnin hefur ítrekað sagt að það þurfi að bæta um það bil 5 terawattstundum við kerfið á næsta áratug. Það er töluverð aukning en alls ekki óyfirstíganlegt verkefni. En það þarf þá að horfa fram í tímann og gera áætlun um hvernig það eigi að geta gengið upp. Það tekur langan tíma að rannsaka og undirbúa virkjunarkost, afla allra leyfa og byggja svo. Hvammsvirkjun verður t.d. ekki gangsett fyrr en 2030 og þó eru framkvæmdir hafnar.“

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Skortur á orku eða orkuskortur
Að sögn Harðar hefur borið á hugtakaruglingi í umræðunni um mögulegan orkuskort.
„Ég skrifaði til dæmis grein í vetur með fyrirsögninni Það er skortur á orku en ekki orkuskortur. Hvað á ég við með því? Jú, orkuskortur er nokkurs konar neyðarástand sem skapast þegar þarf að skerða forgangsorku til viðskiptavina sem hafa gert samninga um kaup á henni. Sem stendur er ekki til lagarammi sem segir til um hvernig eigi að forgangsraða ef slíkt ástand skapast en ráðherra hefur boðað að úr því verði bætt snemma á kjörtímabilinu og raforkuöryggi almennings tryggt.
Það er hins vegar ekki orkuskortur þegar skerðanleg orka er skert, það liggur nú bara í orðanna hljóðan. Skerðanleg orka er bónusorka sem er í boði í góðum vatnsárum og leikreglurnar skýrar hvað hana varðar þegar illa árar í vatnsbúskapnum. Orkuskortur er sem sagt eingöngu þegar við náum ekki að uppfylla samningsskuldbindingar, og það hefur aldrei gerst í sögu Landsvirkjunar.
Það er mjög mikilvægt að greina á milli orkuskorts og þess ástands sem hefur verið skapað hér undanfarin ár með því að nýjar virkjanir hafa ekki fengið framgang í kerfinu á meðan íbúum hefur fjölgað mjög hratt og bæði nýir og gamlir viðskiptavinir óska eftir að kaupa meiri orku. Þegar ekki er nægt framboð af orku dregur einfaldlega mátt úr atvinnulífinu. Ný, spennandi fyrirtæki komast ekki af stað með starfsemi og þar með verðum við af tækifærum til að auka útflutningstekjur sem við þurfum mjög á að halda ef við ætlum að halda uppi þeim lífsgæðum sem við Íslendingar búum við hér á harðbýlu eyjunni okkar í Norður-Atlantshafi.“
Hörður segir að reikningsdæmið verði frekar einfalt þegar atvinnustefna ríkisstjórnarinnar liggi fyrir.
„Ef ekki er til orka fyrir þau verkefni sem þar koma fram þá hlýtur að vera skortur á orku,“ segir hann. „Við eigum þeim sem á undan okkur gengu mikið að þakka fyrir að hafa tekið djarfar ákvarðanir um stórfellda uppbyggingu bæði raforkukerfisins og hitaveitunnar. Við megum ekki verða makráð eða værukær og fara að standa í þeirri trú að hlutirnir gerist af sjálfu sér, því það gera þeir sannarlega ekki. Við höfum öll spil á hendi til að halda áfram á þeirri braut sem þá var mörkuð og vonandi verða framtíðarkynslóðir jafn stoltar af okkar verkum og við erum af verkum fyrri kynslóða.“
Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Samorkuþing 2025. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.