Flugfélagið PLAY hefur hafið miðasölu til tveggja nýrra áfangastaða. Annars vegar til Marrakesh í Marokkó og hins vegar Madeira í Portúgal. Flogið verður einu sinni í viku á þriðjudögum til Madeira en allt að tvisvar í viku á fimmtudögum og sunnudögum til Marrakesh.

Fyrsta flugið til Madeira verður 15. október og fyrsta flugið til Marrakesh verður 17. október. Áætlunarflug PLAY til Marrakesh verður fyrsta áætlunarflugið á milli Íslands og Afríku.

„Við höldum áfram að stækka úrvalið sem við bjóðum upp á af áfangastöðum fyrir sólþyrsta Íslendinga og er leiðakerfið okkar í Suður-Evrópu eitt það veglegasta sem sést hefur á Íslandi. Við erum með átta áfangastaði á Spáni og nú þrjá sem tilheyra Portúgal. Þar að auki bætum við hinni töfrandi borg Marrakesh við leiðakerfið okkar og ég hef fulla trú á að Íslendingar muni taka vel í þessar fyrstu áætlunarferðir á milli Íslands og Afríku,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.