Skemmtiferðaskipið Fridtjof Nansen frá norska skipafélaginu HX Hurtigruten Expeditions lagðist að bakka við Miðbakka hjá Faxaflóahöfnum á sunnudaginn og landtengdist rafmagni. Um var að ræða fyrstu landtengingu skemmtiferðaskips á Miðbakkanum í Reykjavík.

Í tilefni áfangans var haldin athöfn við höfnina þar sem Cecilie Willoch, sendiherra Noregs á Íslandi, var viðstödd og ávarpaði gesti.

Faxa­flóa­hafn­ir eru meðal fyrstu hafna heims sem hafa þann mögu­leika að geta land­tengt skemmti­ferðaskip með raf­magni. Í tilkynningu segir að Noregur hafi að mörgu leyti verið fyrirmynd Faxaflóahafna í framþróun umhverfismála hafna þar sem Norðmenn séu framarlega á því sviði.

„Það er stór áfangi hjá Faxaflóahöfnum þegar við náum að landtengja skip með þessum hætti og fyrsta skemmtiferðaskipið var landtengt með rafmagni síðasta haust við Faxagarða. Faxagarðar taka við minni skemmtiferðaskipum, en Miðbakki við þeim stærri og með landtengingu Fridtjof Nansen er verið að draga talsvert úr olíunotkun skipsins,“ segir Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Aðeins 2% hafna á heimsvísu eru með landtengingar en tvær hafnir eru þegar komnar með landtengingu á Íslandi samkvæmt upplýsingum frá Cruise Lines International Association.

Þá hefur Evrópusambandið einnig sett það skilyrði að hafnir í evrópska flutningsnetinu verði tilbúnar með landtengingar með rafmagni fyrir öll skip yfir 5.000 BT fyrir árið 2030.