Hvalur hf. var rekið með 224 milljóna króna tapi á síðasta rekstrarári, sem nær yfir tímabilið 1. október 2023 til 30. september 2024. Tekjur Hvals drógust saman um 7,3 milljarða, eða 84%, á milli rekstrarára, úr 8,7 milljörðum í 1,4 milljarða. Munaði þar mest um að fjáreignartekjur drógust saman um 4,1 milljarð á milli rekstrarára, eða um 78%, úr 5,3 milljörðum í 1,2 milljarða.

Í skýrslu stjórnar er farið yfir hvernig stóð á því að fjáreignartekjur drógust jafn mikið saman og raun ber vitni. Munaði þar langmest um að tekjur af eignarhlutum í hlutdeildarfélögum drógust saman úr 5 milljörðum í 688 milljónir á milli rekstrarára.

Sumarið 2023 fór Hampiðjan á aðalmarkað Kauphallarinnar í kjölfar hlutafjárútboðs þar sem Hvalur tók þátt en þó með þeim hætti að hlutdeild Hvals í minnkaði við hlutafjáraukninguna. Það hafi leitt af sér 4,1 milljarða tekjufærslu á rekstrarárinu 2022/2023. Vaxtatekjur lækkuðu úr 63 milljónum í 9 milljónir á milli rekstrarára þar sem félagið minnkaði stöðu sína í verðbréfasjóðum.

Bókfært virði eigna Hvals í lok síðasta rekstrarárs nam 30,9 milljörðum. Eigið fé nam 25,1 milljarði og var eiginfjárhlutfall því 81%. Skuldir við lánastofnanir námu 5,6 milljörðum í lok síðasta rekstrarárs og jukust um tæplega 3,1 milljarð. Um er að ræða rekstrarlán í japönskum jenum.

Meðal stærstu eigna Hvals er um 37% hlutur í Hampiðjunni en þegar þetta er skrifað nemur markaðsvirði hlutarins hátt í 27 milljörðum. Hvalur á einnig 65% hlut í Íslenska gámafélaginu. Að auki átti félagið í lok síðasta rekstrarárs 2,43% hlut i Arion banka sem metinn var á 5,4 milljarða í bókum þess, 0,33% hlut í Marel (nú JBT Marel) sem metinn var á 1,6 milljarða, 0,35% hlut í Alvotech sem metinn var á 2,6 milljarða og 2,35% hlut í Amaroq sem metinn var á 801 milljón. Þá keypti Hvalur eignarhluti í félögunum 12 fetum og 6 álnum sem tengdust viðskiptum með hlutabréf í Marel við samruna félagsins við JBT.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.