Ríkisendurskoðandi telur að það gæti valdið íslenska ríkinu bótaskyldu að gera opinbera greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, ad hoc ríkisendurskoðanda, um starfsemi Lindarhvols sem send var Alþingi í júlí 2018. Greinargerðin innihaldi staðreyndavillur og missagnir sem gætu, auk bótaskyldunnar, skaðað hagsmuni ríkisins með ýmsum hætti. Þetta kemur fram í umsögn ríkisendurskoðanda til forsætisnefndar Alþingis vegna kæru Viðskiptablaðsins um aðgang að téðri greinargerð.
Á þeim tíma er Lindarhvoll var stofnað var Sveinn Arason ríkisendurskoðandi. Bróðir hans, Þórhallur Arason, var formaður stjórnar félagsins. Var fyrrnefndur Sigurður því settur yfir málefni er lutu að félaginu. Vanhæfisástæður féllu niður þegar Skúli Eggert Þórðarson tók við sem ríkisendurskoðandi og tók hann þá við þræðinum. Ad hoc ríkisendurskoðanda var tilkynnt þessi ákvörðun í maí 2018 en þá um sumarið sendi hann afrakstur vinnu sinnar, sem þá var ólokið, til Ríkisendurskoðanda og forseta þingsins.
Svo að kalla allt síðasta ár fengust þær upplýsingar frá Ríkisendurskoðun að skýrsla um starfsemi Lindarhvols, sem Sigurður hafði unnið að, væri alveg á lokametrunum. Skýrslan leit loks dagsins ljós í maí á þessu ári.
Í fyrra rataði mál fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál (ÚNU) þar sem aðgangs hafði verið óskað að téðri greinargerð. Nefndin féllst á það með fjármálaráðuneytinu (FJR) að greinargerðin væri undirorpin sérstakri þagnarskyldu en bætti því við að „[þ]egar lokaeintak greinargerðarinnar hefur verið afhent Alþingi“ ætti sú skylda ekki lengur við.
Ótæk sem grunnur að skýrslu
Á sama ári var stjórnsýslu Alþingis kippt undir gildissvið upplýsingalaga og freistaði Viðskiptablaðið þess í vor að fá aðgang að greinargerðinni hjá þinginu. Skrifstofa þingsins hafnaði þeirri beiðni, eftir að hafa ráðfært sig við ríkisendurskoðanda, þar sem að um vinnuskjal væri um að ræða sem sent hefði verið þinginu á grundvelli lagaskyldu. Á það féllst Viðskiptablaðið ekki og taldi að lagaskilyrði, til að synja um aðgang að gagninu í heild sinni, væru ekki uppfyllt. Afgreiðsla skrifstofu þingsins var því kærð áfram til forsætisnefndar þingsins.
Við meðferð málsins þar var ríkisendurskoðanda gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna kærunnar. Bættist það við umsögn sem ríkisendurskoðandi gaf meðan málið var til meðferðar hjá skrifstofu þingsins. Umrædd greinargerð var send þinginu í lok júlí 2018 – þá til að „gera grein fyrir stöðu vinnunnar“ – og nokkrum vikum síðar send FJR, Seðlabankanum og stjórn Lindarhvols til umsagnar. Sagði í fyrra athugasemdabréfi ríkisendurskoðanda að eftir að athugasemdir bárust frá stjórn Lindarhvols: „var ljóst að ekki væri unnt að birta greinargerðina nema að viðlagðri þagnarskyldu þess sem fengi hana afhenta“. Enn fremur þótti ljóst að ekki væri unnt að nýta hana sem grunn að skýrslu til þingsins.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .