Christian Kamhaug, upplýsingafulltrúi Wolt fyrir Noreg, Ísland og Lúxemborg, furðar sig á þeirri umræðu sem fór af stað í gær í tengslum við skoðanagrein sem birtist á Vísi í gær. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að enginn hafi haft samband við fyrirtækið af fyrra bragði vegna málsins.
Í greininni er því meðal annars haldið fram að alþjóðleg fyrirtæki eins og Wolt byggi viðskiptamódel sitt á hagnýtingu einstaklinga í berskjaldaðri stöðu og er skorað á Wolt að axla ábyrgð á áhrifum starfsemi sinnar.
„Mér finnst mjög skrýtið að sjá hversu margir blaðamenn taka það að sér að skrifa fréttir um þetta mál án þess að hafa samband við okkur. Í Noregi væru slík vinnubrögð til að mynda óhugsandi,“ segir Christian.
Hann segir að fyrirtækinu sé kunnugt um að lögreglan hafi kallað nokkra verktaka sem hafa sinnt störfum sendla til yfirheyrslu vegna atvinnuréttinda þeirra hér á landi. Í þessum tilfellum sé þá um að ræða ólöglega deilingu á samningum verktaka.
Í tilkynningu frá Wolt segir að undir vissum kringumstæðum sé heimilt að deila slíkum samningum eins og hjá öðrum þjónustuveitendum svo lengi sem fyrirtækið sé upplýst um það. Hins vegar geti ólögleg samnýting reikninga átt sér stað, þar sem samningsbundinn verktaki áframselur verkið til óvottaðs einstaklings. Wolt segir þetta vera brot á samningi og leiði til tafarlausrar uppsagnar samnings hjá fyrirtækinu.
„Við gætum þess vandlega að starfa innan ramma laga í hvaða landi sem við störfum í. Við höfum leitað til lögreglunnar og boðið alla aðstoð sem við getum til að koma þessu í lag. Ef eitthvað er þá fögnum við samstarfinu og vildum óska þess að við hefðum heyrt af þessu fyrr.“
Christian segir að sendlar hjá Wolt þurfi að uppfylla neðangreind skilyrði:
- 18 ára aldurstakmark.
- Einstaklingur þarf að vera með ökuréttindi ef hann notar bíl/mótorhjól.
- Auðkenni einstaklings er staðfest í gegnum þriðja aðila (Onfido).
- Einstaklingur þarf að leggja fram vegabréf eða önnur gild skilríki.
- Erlendir sendlar þurfa að framvísa atvinnuleyfi og er gildistími samnings í samræmi við gildistíma atvinnuleyfisins.
- Ef sendill fær einhvern til að vinna fyrir sig, til dæmis ef veikindi koma upp, verður staðgengill hans að fara í gegnum sama ferli til að ganga úr skugga um að hann uppfylli skilyrði fyrirtækisins.
Wolt tekur það skýrt fram að fyrirtækið sjálft sæti ekki rannsókn, eftir því sem það best veit. Þá hafi ekkert yfirvald á Íslandi sett sig í samband við Wolt vegna verktakanna en fyrirtækið muni með ánægju vinna með lögreglu eða öðrum yfirvöldum í tengslum við málið.
Christian tekur einnig fram að ólögleg deiling samninga sé mjög sjaldgæf innan fyrirtækisins og segir að meirihluti sendla séu duglegir og heiðarlegir og hafi fyrirtækið enga ástæðu til að treysta þeim ekki.
Wolt hefur einnig þróað og innleitt andlitsgreiningarkerfi í smáforriti sínu fyrir sendla sem fyrirtækið hefur notað í Finnlandi og hefur þessi lausn verið virkjuð fyrir sendla á Íslandi frá 3. júní sl.
„Sem fyrirtækið njótum við ekki góðs af ólöglegri deilingu samninga þar sem misnotkun á fólki og skerðing á þjónustu getur átt sér stað. Forgangsverkefni okkar er að halda áfram að þróa tæknivettvang okkar og starfsemi til að tryggja að Wolt sé örugg þjónusta fyrir alla.“