Neytendastofa hefur tekið ákvarðanir gagnvart Orkunni IS ehf. og Olís ehf. vegna fullyrðinga um kolefnisjöfnun sem birtust í markaðsefni félaganna. Niðurstaðan var sú að ummæli fyrirtækjanna væru villandi og óréttmæt gagnvart neytendum.

Í tilviki Orkunnar var um að ræða fullyrðinguna „Jafnaðu þig hjá Orkunni – Kolefnisjafnaðu eldsneytiskaupin með Orkulyklinum strax í dag“ og í tilviki Olís var um að ræða fullyrðingarnar „Við greiðum helming á móti – Kolefnisjafnaðu eldsneytisviðskiptin“ og „Olís kolefnisjafnar allan sinn rekstur“.

Í svörum Orkunnar kom fram að félagið hafi unnið með Votlendissjóði frá árinu 2018. Samstarfið lýsi sér þannig að viðskiptavinir sem hafi skráð Orkulykilinn sinn í átak Votlendissjóðs geti gefið 5 krónur af 10 króna afslætti sínum til málefna er tengist endurheimt votlendis og þannig kolefnisjafnað eldsneytiskaup sín.

Varðandi stöðvun Votlendissjóðs á sölu kolefniseininga hafi félagið hins vegar hætt að notast við umrætt orðalag í markaðsefni sínu en bjóði nú viðskiptavinum sínum að styrkja Votlendissjóð. Því taldi Orkan að fullyrðingar hafi verið í samræmi við lög.

Þá sagði Olís að félagið hefði um langt árabil styrkt landgræðslu á Íslandi með samvinnuverkefnum félagsins og Landgræðslu ríkisins.

„Með vísan til þess verði að telja ljóst að Olís kolefnisjafni eigin rekstur sé horft til þess hvernig það hugtak sé skilgreint, m.a. í íslenskum lögum. Þá kom fram að Olís telji að fullyrðingar félagsins hafi verið í samræmi við skilgreiningu laga á kolefnisjöfnun,“ segir á síðu Neytendastofu.

Niðurstaða Neytendastofu var engu að síður sú að fullyrðingarnar hafi gefið neytendum ranglega til kynna að eldsneytisviðskipti þeirra höfðu engin eða að minnsta kosti minni áhrif á umhverfið og væru því líkleg til að hafa áhrif á ákvörðun hins almenna neytanda um að eiga viðskipti við félagið.