Félag atvinnurekenda gagnrýnir harðlega nýja reglugerð Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra sem fjallar meðal annars um útlit og viðvörunarmerkingar tóbaksvara. Í reglugerðinni er mælt fyrir um svokallaðar einsleitar umbúðir fyrir tóbak.
Samkvæmt reglugerðinni mega engin vörumerki vera á umbúðum um tóbak og verða þær allar að vera í litnum matt pantone 448 c, en hann hefur gjarnan verið kallaður ljótasti litur í heimi.
Gert er ráð fyrir að ákvæðið gangi í gildi í maí 2027 en þá verður allt ytra og innra yfirborð umbúða tóbaksvöru að vera í þessum lit. Eins verður heiti vörunnar eða undirtegundar að vera í litnum hvítt matt eða svart.
FA bendir á að í lögum um tóbaksvarnir segi ekkert um einsleitar umbúðir og þykir félaginu því hæpið að reglugerðin hafi lagastoð.
„Okkur finnst stjórnskipulega óverjandi að heilbrigðisráðherra grípi inn í stjórnarskrárvarin atvinnu- og eignarréttindi með þessum hætti. Slík inngrip geta átt rétt á sér út frá almannahagsmunum en þau verða þá að vera lögfest og fá þá umræðu og skoðun á Alþingi sem slíkt verðskuldar,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.
Ólafur segir að gagnrýni FA snúi ekki síst að því fordæmi sem sé gefið með reglugerðarákvæðinu.
„Tóbak nýtur ekki vinsælda en er engu að síður lögleg vara og framleiðendur hennar og seljendur eiga réttindi, sem verða ekki af þeim tekin. Hvað ef ráðherra dettur næst í hug að setja sjálfur reglugerð um einsleitar umbúðir um gos eða feitt kjöt?“