Segir ráðið í umsögn sinni við frumvarp Þorsteins Víglundssonar, ráðherra félags- og jafnréttismála, um jafnlaunavottun að frekar eigi að nota jafnréttisstuðul ráðsins á umbunandi hátt með einhvers konar ívilnun.
Segja þeir að þó staðallinn ÍST 85:2012 Jafnlaunakerfi - Kröfur og leiðbeiningar, vera öflugt verkfæri fyrir fyrirtæki og stofnanir til að innleiða jafnlaunakerfi og tryggja, þá eigi ekki að skylda fyrirtæki og stofnanir til að innleiða staðalinn. Minna þeir jafnframt á að skyldan til að greiða körlum og konum sömu laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf er þegar til staðar í lögum, staðalinn breyti engu þar um.
„Staðlaráð telur vænlegra til árangurs að beita jákvæðri hvatningu frekar en þvingunum. Staðlar eru almennt ætlaðir til valfrjálsrar notkunar og þeir eiga að láta fyrirtækjum og stofnunum í té lausnir fremur en að vera skyldubundin úrræði,“ segir í umsögninni, þar sem margítrekað er að staðlar eigi að vera valfrjálsir.
„Vottun á jafnlaunakerfi samkvæmt ÍST 85:2012 er ein lausn sem fyrirtæki og stofnanir geta notað til að sýna fram á að þau fari að lögum, en slík vottun þarf ekki - og ætti ekki - að vera eina úrræðið. Fyrirtæki og stofnanir ættu að hafa frelsi til að beita öðrum úrræðum til að sýna fram á að þau fari að lögum.“
Bendir ráðið jafnframt á misræmi í skilgreiningu á hugtakinu vottun og leggur ráðið til að skilgreining staðalsins verði notuð í lögunum. „Staðlaráð harmar jafnframt að velferðarráðuneytið skuli ekki hafa séð ástæðu til að leita til Staðlaráðs, sem útgefanda staðalsins og eiganda höfundar- og nýtingarréttar að honum, við undirbúning frumvarps þessa.“