Hægriflokkurinn Reform UK ætlar að gera róttækar breytingar á fjárfestingum opinberra lífeyrissjóða í Bretlandi.
Flokkurinn segir að léleg stjórnun og of hár kostnaður hjá lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaganna kosti breska skattgreiðendur allt að 10 milljarða punda á ári í glataðar tekjur og óþarfa gjöld.
Á blaðamannafundi í dag sakaði varaformaður flokksins, Richard Tice, stjórnendur sjóðanna um „vanhæfni í besta falli, grófa vanrækslu í versta falli“ en Bloomberg greinir frá.
Hann sagði að lífeyrissjóðirnir væru að greiða of háar þóknanir til fjárfestingastjóra sem skiluðu ávöxtun undir væntingum og þegar halli væri á rekstri féllu byrðarnar á skattgreiðendur.
„Við sjáum menningu þar sem ráðgjafar og lögfræðingar græða á meðan lífeyrissjóðirnir fá of lítið fyrir peningana,“ sagði Tice og krafðist stærðarhagkvæmni og betri árangurs.
Reform UK, sem hefur unnið sér inn vaxandi fylgi í skoðanakönnunum og náði fjölda sveitarstjórnarsæta í vor, hyggst þrýsta á að „vanhæfir fjárfestingastjórar“ verði látnir fara og að fjárfest sé minna í dýrum, óskráðum eignum.
Flokkurinn vill í staðinn beina sjóðunum að einfaldri fjárfestingastefnu sem byggir meira á alþjóðlegum hlutabréfum og vísitölusjóðum og minna af fjárfestingum tengdum kolefnishlutleysi.
Tice sagði að með lægri gjöldum gætu sveitarfélög annaðhvort lækkað útsvarið eða aukið framlög til félagsþjónustu.
Hann fullyrti að lífeyrissjóðirnir gætu þénað 9–11 milljarða punda meira á ári ef þeir fjárfestu með lægri kostnaði í 75% alþjóðlegum hlutabréfum og 25% skuldabréfum.
„Virku fjárfestingastjórarnir sigra aldrei meðaltal vísitölusjóða. Lífeyrissjóðir eru langtímaverkefni og hlutabréf hafa alltaf skilað mestum arði,“ sagði Tice.
Local Government Pension Scheme er stærsta lífeyriskerfi Bretlands með um 7 milljónir sjóðsfélaga og 400 milljarða punda í eignum, sem er spáð að muni vaxa í 1.000 milljarða punda fyrir 2040.
Í dag er eignum þess skipt í 86 sjóði og um helmingur eigna er nú þegar fjárfestur í hlutabréfum.