Fylgi Pírata hrynur og Framsóknarflokkurinn er á góðri leið með að þurrkast út samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Gallup á fylgi flokkanna í borginni.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærsti flokkurinn í borginni. Auk hans auka Viðreisn og Vinstri grænir við sig fylgi samkvæmt könnuninni.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 31,2% fylgi í könnun Gallup, sem framkvæmd var dagana 13. til 31. janúar 2025. Flokkurinn tekur mikið stökk frá könnun Gallup sem gerð var í október en þá mældist flokkurinn með 21,1%.
Í borgarstjórnarkosningunum 2022 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 24,5% atkvæða og 6 borgarfulltrúa kjörna en samkvæmt nýju könnunni fengi flokkurinn 8 borgarfulltrúa.
Borgarfulltrúar í Reykjavík hafa verið 23 talsins frá því í kosningunum 2018, þar áður sátu 15 borgarfulltrúar í borgarstjórn. það þarf því 12 borgarfulltrúa til að mynda meirihluta. Núverandi meirihluti er með 13 borgarfulltrúa, sem skiptast þannig að Samfylkingin er með 5, Framsóknarflokkur 4, Píratar 3 og Viðreisn 1.
Hrun Pírata og Framsóknar
Samkvæmt könnunni eru miklar sviptingar á fylgi flokkanna í borginni. Framsóknarflokkurinn mælist með einungis 3,3% fylgi, sem er svo sem svipað og hann var með í könnun Gallup í október þegar hann mældist með 3,5%.
Fylgi Framsóknarflokksins hefur verið á stöðugri niðurleið síðan í kosningunum 2022 þegar hann fékk 18,7%.
Píratar hafa í gegnum árin verið nokkuð sterkir í borginni, sem dæmi fékk flokkurinn 11,6% atkvæða í kosningunum 2022. Í fjórum könnunum Gallup á síðasta ári mældist flokkurinn með 10,4 til 12,1% fylgi í borginni.
Í könnunni sem gerð var nú í janúar hrynur fylgi flokksins niður í 4,4%, sem þýðir að flokkurinn fengi aðeins 1 borgarfulltrúa kjörinn.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.