Sjálfstæðisflokkurinn er langstærsti flokkurinn í Reykjavík samkvæmt nýrri könnun Gallup sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið. Flokkurinn eykur fylgi sitt töluvert frá því í könnun Gallup í janúar.

Nýr meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins er kolfallinn samkvæmt könnuninni og fengju flokkarnir sem mynda meirihlutann aðeins 10 af 23 borgarfulltrúum.

Oddvitar nýja meirihlutans í borginni. Sanna Magdalena Mörtudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri, Líf Magneudóttir og Helga Þórðardóttir.

Flokkur flokksins tapar um helmingi fylgis síns milli kannanna og fengi engan borgarfulltrúa. Athyglisvert er að konur yfirgefa flokkinn frekar samkvæmt könnuninni.

Flokkurinn tapar rúmum fjórum prósentustigum meðal kvenna en tveimur meðal karla. Enn eru þó konur í miklum meirihluta stuðningsmanna flokksins samkvæmt könnuninni.

Fylgi Samfylkingarinnar minnkar svipað og Sjálfstæðisflokkurinn eykur við sig. Fylgi Framsóknar, Pírata og Vinstri grænna eykst en Viðreisn og Miðflokkur dala.

Sósíalistar bæta mest við sig allra flokka, aðeins meira en Sjálfstæðisflokkur.

Fjallað verður um könnun Gallup í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið kl. 19.30 í kvöld á vefnum.