Hópur fjárfesta, með milligöngu alþjóðlega fjárfestingasjóðsins Icelandic Star Property Ltd., hefur eignast meirihluta í Icelandic Water Holdings, sem á meðal annars dótturfélagið og vörumerkið Icelandic Glacial, með kaupum á nýju hlutafé.

Frá þessu er greint í tilkynningu en fjárfestarnir hafa samhliða aukið eigið fé félagsins. Núverandi hluthafar, meðal annars sjóðir í stýringu bandaríska fjárfestingarfélagsins Black Rock og feðgarnir Jón Ólafsson og Kristján Jónsson, hafi samhliða keypt hluti í félaginu með skuldbreytingu lána og viðbótarfjárfestingu. Jón og Kristján muni áfram eiga umtalsverðan hlut í félaginu, samkvæmt tilkynningunni.

„Með þessari miklu fjárhagslegu styrkingu er grunnur lagður að aukinni starfsemi í verksmiðju félagsins í Ölfusi og mikilli sókn vörumerkisins á alþjóðlegum drykkjarvatnsmarkaði. Um leið leggur Icelandic Glacial lóð á vogarskálar þeirrar umhverfisvænu matvælaframleiðslu sem sveitarfélagið hyggst byggja upp í náinni framtíð,“ segir í tilkynningunni.

Jón og Kristján munu setjast í nýja stjórn félagsins og mun Jón jafnframt starfa sem sendiherra vörumerkisins á heimsmarkaði. Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun ágúst að sænski fjárfestirinn Johan Eric Dennelind hafi verið kjörin stjórnarformaður Icelandic Water Holdings í stað Jóns. Í tilkynningu segir Jón að kaupin séu afar stór og kærkominn áfangi í starfseminni.

„Starfsemin hefur ekki einungis verið fest í sessi til framtíðar heldur er eigendahópurinn samstíga um að bæta vindi í seglin og verja verulegum fjármunum í annars vegar aukin umsvif framleiðslunnar og hins vegar öfluga sókn í markaðsfærslunni víða um heim. Ég er afar stoltur af þeim stað sem starfsemi okkar er komin á með þessari nýju fjárfestingu,“ segir Jón.

Milljarða króna taprekstur

Morgunblaðið greindi fyrst frá kaupunum í síðasta mánuði. Jón Ólafsson sagði þá að kaupin hafi átt sér langan aðdraganda þar sem hann hafði hitt hluta fjárfestanna í desember 2019.

Það væru áform þeirra að stór­auka fram­leiðslu­getu hjá Icelandic Water Hold­ings á Hlíðar­enda í Ölfusi með því að reisa nokkrar verksmiðjur í viðbót. Með nýrri fjárfestingu væri þá gert ráð fyrir að auka söluna um rúmlega 50% á ári næstu árin.

Félagið tapaði rúmlega 21 milljón dala árið 2021, eða sem nemur tæplega 2,8 milljörðum króna miðað við gengi Bandaríkjadals á lokadegi þess árs. Árið 2020 nam tap félagsins tæplega 19 milljónum dala.